149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:52]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Úr því að hæstv. ráðherra virðist ekki vita til hvers ég er að vísa þá er ég að vísa til markmiðanna á bls. 187. Það eru markmið sem ganga út frá því að það verði mjög takmörkuð útvíkkun á fríverslunarsamningum á komandi fimm árum. Auðvitað er til mikils að vinna. Ég veit að það eru margar samningaviðræður í gangi. Spurningin snýr kannski meira að því hvort það eigi ekki að leggja meiri áherslu á það og jafnvel mætti þróa einhverja mælikvarða á borð við t.d. umfang alþjóðaviðskipta, hversu mikið við erum að flytja út, hversu mikil verðmæti það eru, frekar en að telja fríverslunarsamningana sjálf ofan í okkur þó svo það sé vissulega fínt að gera það líka.

Síðan er ekki sama hvernig samninga er um að ræða. Það eru margir samningar til sem núna er verið að uppfæra frá vöruviðskiptum yfir í þjónustuviðskipti. Það væri ágætt að hafa einhvers konar sýn á þetta, (Forseti hringir.) sem ég finn hvergi í þessari áætlun, hvers konar (Forseti hringir.) útvíkkun stendur til að framkvæma.