149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:55]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir hans yfirferð yfir málefnasvið utanríkisráðuneytisins í fjármálaáætlun fyrir árin 2020 til 2024. Það er mjög ánægjulegt hve mikill metnaður er lagður í hagsmunagæslu fyrir Ísland í síbreytilegum heimi og tengingu markmiða fjármálaáætlunar við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Hér er unnið að bættri hagsmunagæslu fyrir þá fjölmörgu Íslendinga sem búa og stunda nám erlendis, hagsmunum íslenskra fyrirtækja sem eiga viðskipti við útlönd og hagsmunum landsins er varða auðlinda- og umhverfismál á alþjóðavettvangi.

Ég tek undir það sem fram kemur að nauðsynlegt er að tryggja öfluga framkvæmd EES-samningsins með hagsmunagæslu við upptöku og innleiðingu reglnanna og með fjölgun fríverslunarsamninga. Góð hagsmunagæsla gagnvart Evrópusambandinu er mjög mikilvæg og getur þegar til lengri tíma er litið komið í veg fyrir aukinn kostnað hér á landi, sérstaklega er varðar að koma sjónarmiðum okkar Íslendinga að snemma í upptökuferlinu.

Við stöndum frammi fyrir ýmsum áskorunum á alþjóðavettvangi. Ég leyni því ekki að ég væri ánægðari með fjármálaáætlunina ef sá ríflegi milljarður, sem fjárheimildir málaflokksins lækka um á áætlunartímanum, héldist áfram innan málaflokksins, Í fjármögnunarkafla almennrar þróunaraðstoðar kemur fram að frá og með 2020 má Ísland ekki lengur telja útgjöld vegna umsækjenda um vernd og kvótaflóttafólks með opinberri þróunarsamvinnu eins og gert hefur verið fram til þessa. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort ég skilji það rétt að þessi útgjaldaliður sé enn inni í útgjaldaramma alþjóðlegrar þróunarsamvinnu í áætluninni og vil fylgja eftir spurningu hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, hvort ekki sé rétt að taka þetta fé út úr þróunarsamvinnunni og bæta þar inn varðandi vernd og kvótaflóttafólk.