149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Bara til að útskýra þetta þá er mjög mikilvægt að mínu áliti að við gerum hlutina upp, ef þannig má að orði komast, eins og aðrar þjóðir gera. Ef við berum okkur saman við aðrar þjóðir erum við yfirleitt að bera saman epli og appelsínur.

Það sem við höfum lagt upp með er þetta. Það eru ákveðnar reglur og viðmið sem koma frá DAC, sem er sá hluti OECD sem lýtur að þróununarmálunum, þegar kemur að málefnum hælisleitenda inn í þróunaraðstoð. Síðan reynum við bara að gera það eftir þeim reglum sem eru til staðar. En eins og kemur fram í þessum textum þá er verið að breyta því uppgjöri núna sem mun hafa einhver áhrif á það hvernig þetta lítur út hjá okkur. Það breytir ekkert niðurstöðunni. Það þýðir ekkert að við séum að spara þar sem við erum að leggja okkur fram, ef við getum sagt það svo, í þessari hefðbundnu þróunaraðstoð. Þetta snýst um að við gerum þetta bara upp eins og aðrar þjóðir. Svo getum við haft skoðanir á því hvort við eigum að setja meira eða minna í einstaka málaflokka. En ég held að það hjálpi okkur ekki neitt að fara að gera þetta upp með öðrum hætti en viðmiðin sem eru hjá DAC gera ráð fyrir. Ég vona að ég hafi útskýrt þetta fyrir hv. þingmanni hvernig þessum málum er fyrir komið.

Síðan er ég sammála hv. þingmanni þegar hann talar um mikilvægi þess að gæta hagsmuna okkar í EES. Þar tel ég að sé verk að vinna, ekki bara þegar kemur að viðveru okkar í Brussel, sem við erum að endurvekja aftur, að hafa fulltrúa allra fagráðuneyta þar inni, heldur sömuleiðis þá þurfum við að leggja aukna áherslu á fræðilega þáttinn, að skoða það hvernig við getum nýtt það tæki sem EES-samningurinn er. Það þurfum við að gera í góðri samvinnu við akademíuna og það er eitt af því sem við höfum hug á að gera.