149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Já, ég vil ítreka það varðandi fyrri þáttinn að við erum bara að reyna að gera þetta eins og þau viðmið sem koma frá alþjóðlegum stofnunum gera ráð fyrir. Þegar þeir breyta viðmiðunum eða reglunum þá fylgjum við því. Varðandi það sem hv. þingmaður vísaði í varðandi viðhaldsverkefnin þá er það nú bara þannig að ef við sinnum ekki viðhaldinu mun það koma niður á þeim verkefnum sem þarna eru. Það er dýrt að sinna ekki viðhaldi. Þess vegna erum við, virðulegi forseti, að vekja athygli á þessu, því að þetta er nokkuð sem við höfum áhyggjur af, að það gæti haft slæmar afleiðingar í för með sér ef viðhaldinu er ekki sinnt. Við höfum vakið athygli þeirra aðila sem með þessi mál fara ásamt okkur að þarna gætum við lent í snúnu verkefni ef ekki fást fjármunir í viðhald.