149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:01]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Það er margt jákvætt í fjármálaáætluninni þegar kemur að utanríkismálunum og ber þar fyrst að nefna aukin framlög til þróunaraðstoðar. Það er jákvætt að sjá þau skref sem eru stigin þó að við getum vissulega öll verið sammála um að við getum gert enn betur. Það er líka mjög jákvætt að sjá að áfram er lögð mikil áhersla á öfluga framkvæmd EES-samningsins og öfluga hagsmunagæslu okkar þar. Það hefur verið mjög hvimleitt að hlusta á, getum við sagt, efasemdarmenn í þeim efnum sem gagnrýna EES-gerðirnar þegar við vinnum með þær í þinginu, en styðja um leið ekki við í raun öfluga framkvæmd samningsins ytra þar sem rétti vettvangurinn er einmitt til þess að gæta hagsmuna okkar í hvívetna. Þess vegna fagna ég því að ráðherra heldur þeirri vinnu áfram að efla hagsmunagæsluna ytra og tryggja að við gætum hagsmuna okkar í öllum efnum eins og aðrar fullvalda þjóðir gera vissulega sem að þessum samningi standa.

Það sem veldur ákveðnum áhyggjum hjá mér, og það virðist nú reyndar þegar lesið er um utanríkismálin í fjármálaáætlun að ráðuneytið sjálft hafi töluverðar áhyggjur af því, að það eru fjölmargar áskoranir í utanríkismálum fyrir okkur sem litla þjóð. Við horfum auðvitað á Brexit, það er norðurskautið, við sjáum vaxandi ólgu í heiminum allt í kring sem eykur auðvitað mikilvægi þess að við stöndum vel að okkar hagsmunagæslu og alþjóðasamskiptum í hvívetna. Á sama tíma eru efnahagsaðstæður hér aðeins að versna, gengið að veikjast o.s.frv., sem veldur kostnaðarauka í utanríkisþjónustunni okkar, en framlög til hennar minnka engu að síður á gildistíma fjármálaáætlunarinnar.

Ég velti fyrir mér: Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af því að (Forseti hringir.) utanríkisþjónustan, eins öflug og kná og hún er, valdi ekki þessum mikilvægu verkefnum með þessum takmörkuðu fjármunum?