149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar ábendingar. Hv. þingmaður nefnir EES-samninginn. Það er ljóst að við getum haft mest áhrif á fyrstu stigum en þá þurfum við auðvitað að vera á svæðinu. Bara til að setja það í eitthvert samhengi þá eru það um 600 nefndir sem við höfum aðgang að samkvæmt EES-samningnum, tökum inn 13,4% af gerðunum, en þetta eru samt sem áður 600 nefndir. Við þurfum að forgangsraða hvað það varðar, en við þurfum líka að vinna þétt með, sem hefur gengið vel, félögum okkar í EES-samstarfinu, bæði Noregi og Liechtenstein, en það gerist ekkert af sjálfu sér og það þarf að vinna þetta mjög skipulega. Svo mikið er víst að ef menn eru ekki á vettvangi þá gerist lítið.

Hv. þingmaður vísar líka í áskoranirnar sem eru fjölmargar. Þetta eru náttúrlega ekki fjárlög og það á eftir að fara yfir einstaka þætti og hv. fjárlaganefnd á eftir að skoða það sem þarna liggur á bak við. En það liggur alveg fyrir að áskoranirnar eru miklar og hv. þingmaður vísar til Brexit og ýmissa annarra mála líka. Ef við ætlum að ná þeim markmiðum sem við viljum um að auka útflutningsverðmæti okkar um 1 milljarð á ári, þá þurfum við að vinna mjög þétt saman, hið opinbera og atvinnulífið, og vinna að markaðssókn á nýmarkaði sem eru orðnir mjög stórir. Ég hef vísað til þess að t.d. millistéttin í Kína er orðin fjölmennari en öll Norður-Ameríka. Bandaríkin eru sömuleiðis vannýtt tækifæri. Við erum að vinna þessar tölur með nýrri Íslandsstofu, greina almennilega hvar við erum að selja, því að við erum ekki með nægilega góðar upplýsingar. En ég held að við getum fullyrt það að eins og er á vesturströnd Bandaríkjanna og í flestum fylkjum Bandaríkjanna erum við ekki mjög áberandi með okkar vörur og þjónustu. Ef við ætlum að ná þeim markmiðum að auka útflutningsverðmæti, sem við verðum að gera, þá verður (Forseti hringir.) utanríkisþjónustan og Íslandsstofa og atvinnulífið að vinna mjög þétt saman. Það er ein af áskorununum sem fram undan eru.