149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:06]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra. Þegar kemur að hagsmunagæslu okkar í Evrópu þá verðum við auðvitað að hafa sjálfstraust til að beita fullveldi okkar í þeim samningi en kvarta ekki stöðugt heima fyrir um að við séum svipt því með einhverjum hætti. Það er okkar að nýta það. Við þurfum líka tíma til að styðja við það með þeim fjármunum sem þarf til þess að vera einmitt á staðnum. Þess vegna ítreka ég að það er ánægjulegt að sjá að áfram sé lögð áhersla á þá uppbyggingu.

Varðandi áskoranir okkar í utanríkismálum og þær eru vissulega ýmsar varðandi nauðsyn okkar að auka utanríkisviðskipti sem er lengra mál, þá hef ég áhyggjur af þróun mála varðandi Brexit. Hér liggur fyrir ákveðið bráðabirgðasamkomulag varðandi vöruflutninga, en ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra geti á þessari síðustu mínútu frætt okkur örlítið um þjónustuviðskiptin sem virðast vera í talsvert meiri óvissu. Auðvitað er Brexit allt saman í talsverðri óvissu. Ég held að Bretar sjálfir viti ekki, þó það séu bara tveir dagar í áætlaða brottför, hvort eða hvenær þeir fari og hvað þá með hvaða hætti. (Forseti hringir.) En þjónustuviðskiptin eru okkur auðvitað mjög mikilvæg, ekki síður fjármálaþjónustan. Hvaða (Forseti hringir.) mynd getur hæstv. ráðherra gefið okkur af þróun þar?