149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fer bara beint í Brexit-þáttinn. Það er eins og hv. þingmaður vísaði til, við vitum ekki hvar það mál endar. Hins vegar held ég, miðað við þær upplýsingar sem við höfum — og við höfum ekki bara unnið þetta í ráðuneytinu heldur með hagsmunaaðilum — þá er ekkert sem stendur út af í því sem er fyrirséð hvað varðar Ísland og Bretland. Það gæti hins vegar komið niður á íslenskum hagsmunum ef það verða vandræði milli Bretlands og Evrópusambandsins. Það ráðum við ekki við. En bara t.d. í þessu bráðabirgðasamkomulagi, ef þeir fara út án samnings, þá erum við með betri markaðsaðgang t.d. fyrir sjávarafurðir en í núgildandi fyrirkomulagi, en síðan er eftir að gera framtíðarsamninginn. Við höfum auðvitað unnið þetta með hagsmunaaðilum til að reyna að sjá til þess að ekkert falli á milli skips og bryggju og það er ekkert í þessari vinnu sem bendir til þess að einhverjir af þeim þáttum sem snúa að tvíhliða sambandi Íslands og Bretlands séu ekki inni í þessum samningum. En það breytir því ekki að það væri (Forseti hringir.) óvissu háð og sérstaklega gæti það haft óbein áhrif á Ísland ef það verða viðskiptahindranir milli (Forseti hringir.) Bretlands og Evrópusambandsins.