149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum enn að tala um fjármálaáætlun og nú er það hæstv. utanríkisráðherra. Ég er að velta fyrir mér í sambandi við sendiráð sem við erum með. Við erum mjög lítil þjóð. Við erum á stærð við Bristol á Englandi og það væri svolítið skrýtið ef Bristol væri með sendiráð úti um allan heim og fullt af sendiherrum. Maður sér ekki hvernig sú borg ætti að fjármagna það.

Við erum örþjóð og ég spyr mig, af því að við erum í miklu samráði við Norðurlöndin í gegnum Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið, hvort það væri ekki vel hægt að vera með hinum norrænu ríkjunum í utanríkissamstarfi. Þurfum við sjálf að vera með svakasendiráð með tilheyrandi kostnaði og öðru? Getum við bara ekki verið með herbergi eða skúffu hjá Norðurlöndunum og borgað mun minna og náð hagstæðum samningum. Hefur það verið kannað?

Það sem mig langar líka að ræða er Schengen-samstarfið og hvernig það hefur gengið fyrir sig. Ég fór síðasta sumar til Danmerkur og þá var allt í einu komin landamæragæsla á mörkum Danmerkur og Þýskalands og ég spyr: Er það ekki sjálfsagður hlutur? Mér finnst sjálfsagt ef ég fer erlendis að ég geti sýnt fram á löglegt vegabréf og að vitað sé hvenær ég skrái mig inn í land og hvenær ég fer út úr því. Er það ekki sjálfsagt hvort sem við erum í Schengen eða ekki að hafa upplýsingar um alla þá sem koma og fara frá viðkomandi löndum?