149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er skemmst frá því að segja að það kostar að vera sjálfstæð þjóð. Við berum okkur saman við litlar þjóðir eins og Möltu sem mig minnir að sé með 30 sendiskrifstofur meðan við erum með 22. Í tíð minni sem ráðherra er búið að loka tveimur sendiráðum, annars vegar í Vín og hins vegar í Mósambík, og forgangsraðað með þeim hætti að við getum nýtt þá takmörkuðu fjármuni sem við höfum sem allra best.

Við erum í samstarfi með öllum Norðurlöndunum t.d. í Berlín. Í Bretlandi erum við með danska sendiráðinu, í Washington með því sænska. En það er ekki alveg þannig að það skili sér endilega í beinum sparnaði heldur er það frekar að samlegðin og ýmislegur sameiginlegur kostnaður geti hugsanlega nýst okkur. Jafn góðir vinir okkar og þau eru, norrænu ríkin, þá gætir engin hagsmuna Íslendinga nema Ísland. Reyndar er það þannig að þótt gott sé að eiga góða vini eins og Norðurlandaþjóðirnar þá tökumst við stundum á, ég tala nú ekki um þegar fiskur er annars vegar. Þá þurfum við svo sannarlega að gæta hagsmuna okkar. Einhver kynni að spyrja: Eru það bara einhverjir fiskveiðisamningar? Nei, nei, þetta eru hafréttarmálin og ýmislegt annað. Ég gæti talaði í löngu máli um deilur okkar við okkar nánustu vini hvað slíka þætti varðar. Það mun enginn gæta hagsmuna Íslendinga nema Ísland. Það er bara þannig. En við munum alltaf vera með litla þjónustu og svo snýst þetta um það hvernig við forgangsröðum sem allra best.

Schengen er á forræði dómsmálaráðuneytisins og fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, var með góða skýrslu um Schengen. Ég ætla ekki að fara neitt inn á það svið. Eins og ég nefndi held ég að við gætum ýtrustu hagkvæmni þegar kemur að sendiskrifstofum en við getum rætt það aðeins betur á eftir.