149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:13]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin. Jú, Malta er með fleiri sendiskrifstofur en við og bruðlar þá kannski meira, ég veit alla vega ekki hvernig þeir fara að því. Það segir sig sjálft að við verðum alltaf að hugsa um að við erum smáþjóð, við getum ekki leyft okkur hvað sem er.

Núna er komin upp sú staða að Bandaríkjaher er byrjaður að byggja upp aðstöðu fyrir flugvélar á Keflavíkurflugvelli. Er það eingöngu okkar kostnaður eða hversu mikill er kostnaður þeirra? Munu þeir koma aftur og taka til á flugvellinum á eigin kostnað? Þurfum við að óttast að þurfa að fara út í mikinn kostnað við að koma flugvellinum í lag þannig að hernaðarumferð geti aukist þar?