149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég held að ekki sé rétt að leggja það þannig upp að sendiráð sé eitthvert bruðl. Að vera með sendiráð þýðir ekki að fólk sitji og bíði eftir að eitthvað gerist, við erum með sendiráð sem gæta hagsmuna okkar. Við ræddum áðan EES-samninginn og erum með ýmsar skoðanir á honum, hvað kemur frá Brussel. Við getum haft áhrif en þá þurfum við að vera á svæðinu og vinna vinnuna. Það mun enginn gera fyrir okkur.

Það er ekki hægt að segja að okkur finnist ómögulegt að ekki sé tekið tillit séríslenskra aðstæðna í reglugerð eða tilskipun og öðru slíku ef við gerum ekki athugasemdir við það þegar okkur er boðið að gera það. En þá þurfum við að hafa fólk á svæðinu til að vinna þá vinnu.

Varðandi umsvif Bandaríkjamanna liggur alveg fyrir að þau hafa aukist eftir Krímskagamálin 2014. Það eru miklar framkvæmdir á vegum Bandaríkjahers af því að þeir eru með nýjar flugvélar og annað slíkt og endurnýjun komin á það. (Forseti hringir.) Við höfum greitt mjög lítinn hluta af því en auðvitað tökum við þátt í eigin vörnum. (Forseti hringir.) Við erum í Atlantshafsbandalaginu með tvíhliða samning. En þau stóru framkvæmdir sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) vísar til eru langmest fjármagnaðar annars staðar frá.