149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Ég þakka ráðherra fyrir umræðurnar fram að þessu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í bls. 190, þar er minnst á ný varnarmannvirki. Ef hann gæti rifjað upp með okkur hvaða mannvirki þetta eru. Sjálfsagt höfum við heyrt það en ég sá ekki í áætluninni hvað þetta er nákvæmlega. Það er talað um ný varnarmannvirki. Við vitum að menn hafa verið að lagfæra ákveðna hluti í Keflavík, spurning hvað þetta er.

Ráðherra talar hér í kvöld töluvert mikið um forgangsröðun og hvernig menn fara með fjármuni og ég er algerlega sammála ráðherra um að það skiptir miklu máli. Þess vegna langar mig í það minnsta að nefna að það hefði verið nær að eyða þeim fjármunum sem voru hundruð milljóna, ef ég man rétt, 300 milljónir eða eitthvað slíkt, sem fóru í þetta framboð til UNESCO, og nota það til að bæta og vera t.d. með fasta almennilega viðveru í Strassborg og sinna málefnum í Vín. Það hefði verið nær, frekar en að fara í þetta tímabundna verkefni sem miklir fjármunir eru settir í og ég átta mig ekki á hverju á að skila okkur.

Síðan langaði mig að koma aðeins inn á þróunarsamvinnuna. Um leið og við fögnum því að áætlunin gerir ráð fyrir að við færumst nær þessu markmiði sem við höfum samþykkt, 0,7%, þá er ljóst að það ríkir ákveðin óvissa um það hvernig þessi framlög verða reiknuð í framtíðinni. Ráðherra hefur sjálfur í gegnum tíðina haft ákveðna skoðun á því hvernig eigi að reikna framlög til þróunarsamvinnu og því er freistandi að spyrja hvort menn hafa sett upp einhverjar sviðsmyndir varðandi mögulegar breytingar á útreikningunum.

Síðan langar mig að spyrja ráðherra hve miklum fjármunum hann áætlar að ráðstafa á ári í áætluninni, af liðnum um þróunarsamvinnu í samstarfsríkjum og svæðasamstarfi, í samstarfssjóð með atvinnulífinu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið í dag eru það um 100 milljónir á þessu ári. Hvað er áætlað að komi mikið á ári inn í þennan sjóð?