149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður var að vísa til varnarmannvirkja sem er verið að fara í núna þá er það til komið vegna þess að t.d. nýju kafbátavélarnar og annað sem notað er núna passar illa inn í núverandi flugskýli. Það þarf að breyta þeim til að það náist. Þetta eru flughlöð, þvottastöðvar og annað slíkt. Það eru komin ný tæki og búnaður sem var ekki til staðar áður og í eldri mannvirkjunum er gert ráð fyrir annars konar flugvélum og tækjum. Sömuleiðis er þetta viðhald, þetta eins og annað þarf á viðhaldi að halda.

Varðandi UNESCO geta menn auðvitað haft skoðanir á því hvort við eigum að sækjast eftir setu í alþjóðastofnunum. Ég held að það sé hæpið að halda því fram að við fáum ekki neitt út úr því. Við höfum átt gott samstarf við UNESCO, þau eru nokkuð áberandi hér á landi og ég held að það sé enginn vafi á því að ef menn á annað borð trúa því að alþjóðlegt samstarf sé gott þá sé ýmislegt sem við getum lagt fram á þeim vettvangi og sömuleiðis ýmislegt sem við getum nýtt okkur. Hv. þingmaður þekkir það auðvitað vel að UNESCO er afskaplega virkt á alþjóðavettvangi og eftirsóknarvert að vera þar eins og við vorum nú einu sinni fyrir nokkuð löngu síðan.

Varðandi þróunarmálin — var hv. þingmaður að spyrja út í samstarfssjóðinn við atvinnulífið? Ég get kannski farið betur í það í seinna andsvari en ég var ekki alveg viss. Ef hv. þingmaður myndi kannski ítreka hvað hann var nákvæmlega að vísa til þá skal ég svara því.