149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Varðandi þróunarsamvinnuna þá spurði ég hæstv. ráðherra hvað hann teldi að miklum fjármunum á ári yrði ráðstafað af liðnum þróunarsamvinna í samstarfsríkjum og svæðasamstarfi, í samstarfssjóð með atvinnulífinu. Við notum þessa peninga að sjálfsögðu ekki margoft eins og við öll vitum, einhvers staðar eru þeir teknir og við höfum fengið uppgefið hvaðan peningarnir eru teknir í þannig samstarfssjóð. Þar af leiðandi er spurt: Hvað er áætlað að fari mikið í hann af þessum lið?

Varðandi varnarmannvirkin þá kannast ég vel við þessa flugvélaþvottastöð sem þarna er verið að setja upp. Ég spurði hins vegar um ný varnarmannvirki, það stendur í áætluninni. Það kann að vera að þetta sé bara prentvilla, það sé verið að tala um þessar breytingar á eldri mannvirkjum. En það er áhugavert ef þetta eru einhver ný mannvirki og hver þau eru þá.

Varðandi UNESCO þá sagðist ég einfaldlega ekki vita hvað við fengjum út úr því. Það getur vel verið að það komi eitthvað út úr þessu. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að það væri hægt að nota þessa peninga í annað, t.d. að styrkja viðveru okkar í bæði Strassborg og Vín. Og í ljósi þeirrar umræðu sem var hér áðan (Forseti hringir.) um hvort peningarnir nýttust okkur í utanríkisþjónustunni, þá vantar fjármuni að mínu viti í utanríkisþjónustuna.