149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:23]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Það má fagna þeirri áherslu sem verður í formennskutíð Íslands í Norðurskautsráðinu á málefni hafsins og reyndar var svolítið gaman að sjá samspil málefna sjávar og utanríkismála í áætluninni. Reyndar er samspilið svo mikið að þegar ég var að lesa sjávarútvegskaflann þá hélt ég að ég hefði ruglast og væri í raun að lesa utanríkismálakaflann. Það er hið besta mál. Í ljósi loftslagsbreytinga, súrnunar og hlýnunar sjávar er ljóst að við þurfum að setja miklu meiri kraft í rannsóknir og auka skilning okkar á vistkerfi sjávar. Enda má segja að líf okkar, eða í það minnsta lífsviðurværi, liggi undir.

Það er hins vegar athyglisvert að á sama tíma og þessi áhersla birtist hér gagnvart utanríkismálunum þá er dregið úr framlögum til málaflokksins, sjávarútvegs og fiskeldis og ekki að sjá að verið sé að auka í. Þá kemur einnig fram að á síðustu 20 árum hefur ötullega verið unnið að afmörkun ytri marka landgrunns Íslands í samræmi við ákvæði hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna. Þannig er talið eðlilegt að næsti áfangi, afmörkun ytri marka landgrunnsins, verði á hinu umdeilda Hatton Rockall svæði. Slíkt krefst hins vegar vandaðrar vísindavinnu, eins og kemur fram í áætluninni til rökstuðnings kröfum Íslands og þeirri vinnu fylgir umtalsverður kostnaður. Forsenda þess að hefja megi þennan áfanga, þennan mikilvæga áfanga, sé því að tryggja viðkomandi ráðuneyti og undirstofnunum þess nægjanlegt fjármagn, nokkuð sem er ljóst að ekki er verið að gera í þessari áætlun.

Herra forseti. Ég spyr því hvort hæstv. utanríkisráðherra hafi engar áhyggjur af því að þessi samdráttur gagnvart sjávarútvegsráðuneyti og stofnunum þess geri hans ráðuneyti erfitt fyrir að sinna sínum verkefnum.