149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Hv. þingmaður er hér að tala um mjög mikilvægt mál og hittir algerlega naglann á höfuðið. Það er ekkert leyndarmál að málefni hafsins eru í öllum okkar áherslum, þar sem við getum mögulega komið því við. Það eru mjög mörg ríki sem liggja ekki að hafinu, mjög fá ríki sem eru í jafn miklum tengslum við hafið og sjávarútveginn eins og Íslendingar. Við lítum á það sem forgangsmál að vera alltaf að ræða þau mál og legg ég áherslu á það.

Hv. þingmaður kemur hér að samspilinu því að utanríkisþjónustan er aldrei ein, hún er alltaf að vinna með öðrum. Þegar kemur að þessu mikilvæga máli sem ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á — og ég er fullkomlega sammála hv. þingmanni um áherslurnar hvað þetta varðar — þá skipta undirstofnanirnar máli. Ég skil vel að hv. þingmaður hafi talið það vera hjá sjávarútvegsráðuneytinu en það er hjá umhverfisráðuneytinu, þegar kemur að rannsóknum hvað varðar landgrunnið. Ég sé að hv. þingmaður er alveg jafn hissa og mjög margir sem komast að þessu. Þegar við höfum verið að færa verkefni á milli ráðuneyta þá átti þetta heima þar. Þetta er eitt af því sem ég og hæstv. umhverfisráðherra höfum rætt, erum að leggja áherslu á og koma með tillögur um það hvernig við getum unnið þessa hluti sem hv. þingmaður var að vísa til. Ég ætla ekkert að endurtaka það sem hv. þingmaður sagði, þetta er bara rétt. Þetta snýr hins vegar að undirstofnunum umhverfisráðuneytisins. Þarna, eins og í flestu öðru þegar kemur að okkar hagsmunagæslu, þurfa allir að vinna saman.

Utanríkisráðuneytið mun ekki sinna neinum vísindarannsóknum, svo mikið er víst, á þessu sviði. Þó að vistarverur utanríkisráðuneytisins séu margar man ég ekki til þess að við séum að sinna neinum vísindarannsóknum. Til þess að við náum árangri í okkar vinnu þurfum við að vinna heimavinnuna. Það er þess vegna sem ég og hæstv. umhverfisráðherra höfum sérstaklega sest yfir þetta og beðið okkar fólk að koma með áætlanir um þessa þætti.