149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Hv. þingmaður hefur lesið vel heima, sem er náttúrlega grunnurinn að því að ná árangri og ég þakka fyrir málefnalegar og góðar spurningar. Við erum í ákveðinni vinnu og þetta er ekki fjárlagavinna. Hér erum við að leggja stóru línurnar og ég held að þetta sé til bóta. Ég held að það sé mjög gott að við séum að gera áætlun til langs tíma.

Þýðir það að þetta verða nákvæmlega fjárlögin? Nei, það verður það ekki. Við vekjum athygli þings á þeim þáttum sem við höfum áhyggjur af. Þarna er um að ræða — ég veit ekki hvað skal segja, leiðir embættismannanna eru órannsakanlegar. Við erum bara komin á þann stað að við fengum ákveðin verkefni en við fengum hins vegar ekki fjármuni með því. Það getur illa gengið upp og þess vegna vekjum við athygli á því. Við erum alveg meðvituð um að hér erum við að tala um stóru línurnar og við erum að ræða hlutina til lengri tíma sem ég tel vera mjög skynsamlegt. Við fengum verkefnið en ekki fjármuni til að sinna því og það gengur trauðlega upp.