149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:30]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég hef áhuga á því að ræða við hæstv. ráðherra um þá mælikvarða og markmið sem finna má á blaðsíðu 186 í fjármálaáætlun. Þar kemur fram að mælikvarði á markmið um að standa betur vörð um grunngildi utanríkisstefnu Íslands verði orðspor Íslands á alþjóðavettvangi varðandi grunngildi utanríkisstefnu Íslands, lýðræði, virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og mannréttindum — og svo heldur þetta aðeins áfram.

Síðan er það aðgerð nr. 12 á blaðsíðu 188 sem snýr að því, með leyfir forseta, að:

„Efla gerð og miðlun grunnupplýsinga um brýn hagsmunamál Íslands sem nýtast ráðuneytum og sendiskrifstofum til að efla þekkingu almennings á Íslandi og erlendis á málefnasviðum ráðuneytisins í gegnum innlenda og erlenda fjölmiðla, samfélagsmiðla, með skýrslugjöf og fundum heima fyrir og erlendis.“

Með það markmið í huga, orðspor Íslands þegar kemur að mannréttindum, og áætlun um að vera duglegri að miðla efni um hagsmuni Íslands og orðspor Íslands og hvað utanríkisþjónustan er að gera vil ég spyrja hæstv. ráðherra um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu og þá orðræðu sem ég hef upplifað hjá flokksmönnum hæstv. utanríkisráðherra. Meðal annars sagði hæstv. fyrrverandi dómsmálaráðherra að hún muni ekki láta það átölulaust að dómstólar, hvorki innlendir né erlendir, séu notaðar í pólitískum tilgangi né heldur að íslenskir dómstólar framselji vald sitt til túlkunar á íslenskum lögum til erlendra dómstóla. Formaður flokks hæstv. utanríkisráðherra tók í sama streng og spurði sig hvort við hefðum framselt túlkunarvald yfir til Evrópu. Ég heyrði hæstv. ráðherra einnig nefna að eðlilegt væri að eiga þroskaða umræðu um þau mál og ég get alveg tekið undir það.

En ég velti fyrir mér: Munum við heyra svipuð orð á fundi ráðherraráðsins í Helsinki um að dómurinn hafi framið einhvers konar brot á fullveldi Íslands? (Forseti hringir.) Verður talað um að verið sé að nota mannréttindadómstólinn í pólitískum tilgangi? Ég hef áhyggjur af því að það muni verulega skaða orðspor Íslands.