149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að augljóst sé að orðspor Íslands þegar kemur að mannréttindamálum er gott, annars hefði ekki náðst samstaða um að við tækjum sæti í mannréttindamálum. Þau lönd sem stóðu hvað þéttast á bak við okkur eru þau lönd sem standa sig best í heimi þegar kemur að mannréttindamálum og þau hefðu aldrei stutt okkur eða hvatt til að setjast þar inn ef þau teldu orðspor okkar ekki gott eða að við stæðum okkur ekki vel þegar kemur að mannréttindamálum.

Talandi um orðspor Íslands þá er snúið að búa til mælikvarða, mælanlega mælikvarða, þegar kemur að þeim þáttum. Þetta er oft mjög huglægt.

Ég held hins vegar að ljóst sé að t.d. umræðan um framgöngu okkur í mannréttindaráðinu, sem hefur verið meira í erlendum fjölmiðlum en íslenskum, hafi hjálpað mjög orðspori Íslands. Ég held að það sé ekki glannalegt heldur þvert á móti varkárt að fullyrða að svo sé.

Þegar kemur upp mál eins og hv. þingmaður nefnir skiptir mestu í því máli eins og öllum öðrum að menn gæti hófs í orðavali, en gagnrýnin hugsun er náttúrlega grunnurinn að því að fólk nái árangri. Ég endurtek bara það sem hv. þingmaður vísaði til: Það mun ekki skaða orðspor Íslands að hér sé þroskuð umræðu um þennan dóm eða annað þvíumlíkt sem við munum upplifa í nútíð og framtíð.