149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:35]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég held að það muni skaða orðspor Íslands á alþjóðavettvangi ef hæstv. utanríkisráðherra okkar lætur hafa eftir sér að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi verið notaður í pólitískum tilgangi þegar hann dæmdi, því miður, í fordæmisgefandi máli um skipan dómstóla, fordæmisgefandi fyrir allar þjóðir í Evrópu. Við erum víti til varnaðar eftir þann dóm í allri Evrópu.

Ég hlýt að fá að heyra frá hæstv. utanríkisráðherra að hann sé sammála mér um að það geti ekki verið gott fyrir orðspor Íslands hvað varðar vernd mannréttinda að við séum sýnikennsla í því hvernig eigi ekki að skipa í dómstóla.

Það sem ég er að leita eftir hjá ráðherra er hvort hann muni viðhafa þessa orðræðu. Nú stendur til þing í Helsinki í maí og við tökum bráðum við formennsku í ráðherraráðinu. Það hefur verið reynt áður af Danmörku að ráðast að undirstöðum Mannréttindadómstólsins. Ég spyr hvort við ætlum sömu leið, (Forseti hringir.) hvort orðspor Íslands verði skaddað á þann hátt.