149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég sé enga ástæðu til þess að hv. þingmaður fari að leggja þeim sem hér stendur orð í munn og velta fyrir sér hvort hann muni segja hitt og þetta. Við tökum þennan dóm að sjálfsögðu alvarlega og erum að skoða hann, eins og margoft hefur komið fram. Ég fékk þann kaleik að skipa dómara. Það er ekki einfalt mál. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að ræða þau mál. Ég treysti okkur til að gera það án þess að vera með gífuryrði eða stóryrði. Það er vandasamt að vera með fyrirkomulag sem er hafið yfir alla gagnrýni og ég held að við hv. þingmaður hljótum að vera sammála um að það, eins og annað, hlýtur að vera eitthvað sem við getum tekið umræðu um og rætt hvort við séum með besta fyrirkomulagið eins og það er núna eða hvort það séu vankantar eða gallar á því. Ég tel að ef við gerum það (Forseti hringir.) muni það ekki skaða orðspor Íslands neitt.

Varðandi dóminn tökum við hann alvarlega og erum að skoða hann, eins og margoft hefur komið fram.