149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:45]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Mig langaði að ræða við hæstv. utanríkisráðherra. Hann talaði áðan um að það væri mjög gott að hafa sendiráð og stunda viðskipti við erlend ríki. Þá langar mig að spyrja hann í sambandi við viðskipti sem við áttum mjög góð og mjög lengi við Rússa. Sem krakki man ég eftir því að ég hljóp og hoppaði um í síðastaleik á Moscovitch kössum. Síðan var maður í Völundi að rakka Rússatimbri og fór svo í Eimskip og flutti vörur til Rússlands á lyfturum. Þetta voru mjög góð og mikil viðskipti og gögnuðust okkur mjög vel á erfiðum tímum. Eins og við vitum gerðu Rússar innrás á Krímskaga og síðan höfum við ekki átt í viðskiptum við þá. En nágrannaþjóðir okkar, eins og Færeyingar, eru í góðum viðskiptum.

Ég spyr: Hver er stefnan? Er stefnan sú að halda áfram að hunsa Rússa og þá hvers vegna? Ef við ætlum að hafa þá stefnu að við viljum ekki að vera í viðskiptum við þá sem eru í stríði eða stunda það er ég viss um að við getum ekki verið í viðskiptum við margar þjóðir. Við gætum líka sett það þannig upp að við ætlum ekki að eiga viðskipti þá sem framleiða vopn og selja þau síðan til þess að nota í stríði.

Við gætum á margan hátt útilokað samstarf við fullt af þjóðum. Þess vegna spyr ég mig af hverju við erum enn með viðskiptabann á Rússa og hvort ekki sé réttast að við setjumst niður með þeim og semjum um viðskipti við þá upp á nýtt.