149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:49]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svarið. Þá bara hættum við refsiaðgerðum, strikum yfir þær. Er það ekki besta mál? Er þetta ekki búið að standa nógu lengi? Væri ekki ágætt að fara í samningaviðræður við Rússana, tala við þá eins og við gerum við flestar aðrar þjóðir?

Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur. Við sjáum hvernig Bretum gengur að komast út úr ESB. Það virðist sem ESB sé með einhverjar þumalskrúfur á þeim og erfitt fyrir Breta að kyngja því sem þeir eiga að fá í þessum útgöngusamningi. Svo sá ég viðtal við Frakklandsforseta um daginn þar sem hann sagði að ef það væri kosið í dag um útgöngu Frakka úr Evrópusambandinu væri hann viss um að þeir myndu vilja fara út. Þetta er því hálfgert feigðarflan, ESB-löndin, og fínt að fara að finna fleiri til að eiga viðskipti við, t.d. Rússa.