149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Bara svo að það sé sagt voru viðskiptin við Rússa þegar þau voru hvað mest samt brotabrot af þeim viðskiptum sem við eigum í. Ég held að þau viðskipti nái ekki einu sinni 10%, kannski 7–8%, af viðskiptum við stærsta viðskiptalandið, sem eru Bandaríkin. Þetta hefur því aldrei verið neitt mikið.

En ef við ætlum ekki að taka þátt í refsiaðgerðum, hvaða skilaboð gefum við þá? Við gefum þau skilaboð að þegar alþjóðalög eru brotin ætlum við ekki að taka þátt í að mótmæla því. Hvað gerum við þá ef brotið er alþjóðlega á okkur? Við eigum allt undir því að alþjóðalög séu haldin. Það er auðvitað gott fyrir alla en sérstaklega fyrir smáþjóðir. Hvernig við eigum að ná fram samstöðu og stuðningi við okkur ef einhver brýtur á okkur alþjóðlega ef við erum ekki tilbúin til að leggja okkar litla lóð á vogarskálarnar þegar svo ber undir? Ég held að slíkt væri mjög mikil skammsýni.

Varðandi að tala við Rússa erum við alltaf að tala við Rússa og munum halda því áfram. Ég er reyndar að fara til St. Pétursborgar á næstu dögum. Eina af fyrstu heimsóknum mínum fór ég einmitt til að tala við Pútín og Lavrov. Ég mun halda áfram að eiga slík (Forseti hringir.) samskipti við Rússa og reyna að ýta eftir viðskiptum milli Íslands og Rússlands eins og annarra þjóða. En ég held að það væri mikil skammsýni, óskynsamlegt og alveg (Forseti hringir.) þvert á það sem við stöndum fyrir ef við mótmæltum ekki þegar alþjóðalög eru brotin.