149. löggjafarþing — 86. fundur,  28. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[10:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Efnahagslegar forsendur fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar voru brostnar áður en hún kom til umræðu á Alþingi. Eftir síðustu fréttir er augljóst að hún getur ekki staðið eins og hún er og verður ekki samþykkt óbreytt. Óvissan vex.

Ríkisstjórnin hefur komið þjóðarbúinu með stefnu sinni í spennitreyju sem mun bitna á ungu fólki, fólki með lágar millitekjur, öryrkjum, eldri borgurum og á þeim sem þurfa helst á þjónustu ríkisins að halda.

Forsendur áætlunarinnar eru óraunsæjar og augljóst er að bregðast verður með niðurskurði eða tekjuöflun við þeirri fjármálastefnu sem ríkisstjórnin hefur sjálf sett sér. Fjármálaráð ASÍ og fleiri hafa gagnrýnt stefnuna harðlega — hún bíti fast í niðursveiflunni í stað þess að virka sem sveiflujöfnun í ríkisfjármálum.

Sett er fram 2% aðhaldskrafa á ríkisreksturinn til að útgjöld haldist innan viðmiða sem ríkisstjórnin hefur sett sér. Það bætist ofan á óumflýjanlegan niðurskurð ef kjarasamningar ríkisstarfsmanna leiða til meira en 0,5% launahækkana umfram verðlag. Þessu til viðbótar þarf að bregðast við fækkun erlendra ferðamanna og loðnubresti og meta áhrifin á ríkisstefnuna.

Og hver verða viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar? Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að ef hagvöxtur verði minni en forsendur fjármálaáætlunar gera ráð fyrir sjái hann enga aðra möguleika en að skera niður á útgjaldahliðinni, skera niður í velferðinni og í innviðauppbyggingu. Saman verður óvissa í flugrekstri, loðnubrestur og fjármálastefna ríkisstjórnarinnar til þess að niðursveiflan verður enn dýpri en fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir. Hún verður því ekki samþykkt óbreytt.

Ef viðbrögð ríkisstjórnarinnar við niðursveiflunni í hagkerfinu verða líkt og fjármála- og efnahagsráðherra hefur sagt að þau verði er það birtingarmynd óábyrgrar hægri stefnu sem mun bitna á þeim sem síst skyldi.

Samfylkingin telur að breyta ætti fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og breyta lögum um opinber fjármál svo að svigrúm skapist til að minnka skaða niðursveiflunnar. Þannig væri hægt að liðka fyrir kjarasamningum með skattkerfisbreytingum og fjárfestingum í innviðum, létta undir með verst stöddu hópunum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum, og tryggja velferðina í landinu.

Það er í niðursveiflunni sem fjármálastefna ríkisstjórnarinnar fer að bíta. Þá reynir á viðbrögð stjórnvalda, hvort þau hafa hag þeirra sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda fremstan eða hvort draumur Sjálfstæðismanna um minni ríkisumsvif og aukinn einkarekstur í velferðarþjónustu fáist uppfylltur í gegnum þrengingar þjóðarinnar.

Fjármálaáætlunin óbreytt vinnur hvorki gegn ójöfnuði né tryggir stöðugleika. Á næstu vikum munu þingmenn rýna áætlunina frekar, lesa þær umsagnir sem berast og ræða hana á Alþingi. Það er nokkuð ljóst að Samfylkingin mun leggja fram breytingartillögur fyrir afgreiðslu fjármálaáætlunarinnar við síðari umr. Niðurskurðarstefnu ríkisstjórnarinnar í velferðarkerfinu verður ekki tekið þegjandi.

Við 1. umr. hefur verið stiklað á stóru í samtölum þingmanna við hæstv. ráðherra. Helsta gagnrýni Samfylkingarinnar á áætlunina eins og hún stendur núna er um eftirfarandi:

1. Viðbótaraðhaldskröfu á ráðuneytin er laumað inn í fjármálaáætlun þannig að ef launabætur ríkisstarfsmanna á árunum 2020–2022 verða hærri en 0,5% umfram verðlag þurfa ráðuneyti að skera niður fyrir þeim kostnaði. Þetta gætu orðið verulegar upphæðir, t.d. innan heilbrigðisráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins. Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að ríkisstarfsmenn, þar með stóru kvennastéttirnar, hækki ekki umfram 3,8% í launum milli áranna 2019 og 2020, en ef þeir ná betri samningum munu þeir sem þurfa á þjónustu þeirra að halda bera kostnaðinn með skertri þjónustu — eða kvennastéttirnar með auknu álagi. Í samtali hv. þingmanna og í máli hæstv. heilbrigðisráðherra kom greinilega fram að þeir gerðu sér ekki allir grein fyrir því að þarna væri upphaf á ferðinni sem gæti valdið umtalsverðum niðurskurði í velferðarkerfinu. Hvert prósentustig til hækkunar launa ríkisstarfsmanna kostar um 2 milljarða. Þarna er stór óvissuþáttur sem beinist þráðbeint að velferðarþjónustunni í landinu, reikningur sem ríkisstjórnin ætlar þeim að bera sem standa veikastir fyrir og þurfa á velferðarþjónustu að halda.

2. Tekjustofnar ríkissjóðs eru enn veiktir. Á sl. uppgangsárum hafa tekjustofnar ríkisins markvisst verið veiktir með afnámi auðlegðarskatts, lækkun veiðigjalda og neysluskatta ásamt því að stjórnin sótti ekki tekjur til ferðaþjónustunnar á meðan vel áraði. Þó að í áætluninni sé gert ráð fyrir gjaldtöku á ferðamenn held ég að við getum öll verið sammála um að ekkert verður úr þeirri gjaldtöku núna frekar en þegar betur áraði. Veikari tekjustofnar geta orðið til þess í niðursveiflunni að þeir dugi ekki til að fjármagna velferðarkerfi af þeirri gerð sem velferðarsamfélag getur státað af.

3. Framlög til stofnframlaga til almennra íbúða eru aukin um 3,8 milljarða en heildarútgjöld til húsnæðisstuðnings lækka hins vegar til næstu fimm ára. Þannig eru engin áform um að endurreisa vaxtabótakerfið og stuðningur við fyrstu kaupendur finnst ekki í áætluninni. Áætlaðar tillögur átakshóps í húsnæðismálum eru ekki fjármagnaðar. Allir segjast vera sammála um að húsnæðisvandinn og kostnaðurinn við að hafa þak yfir höfuðið sé af þeirri stærðargráðu að vandinn verði ekki leystur nema með aðkomu stjórnvalda. Augljóst er að aukin stofnframlög sem ríkisstjórnin leggur til munu ekki kippa málum í lag, hvort sem er á hinni efnahagslegu hlið húsnæðisvandans eða á velferðarhliðinni.

4. Engin áform eru um frekari umbætur á barnabótakerfinu. Áfram er markmið stjórnvalda að barnabótakerfið sé eins konar fátækrastyrkur í stað almenns stuðnings við barnafjölskyldur. Í ár fá 13.000 færri fjölskyldur barnabætur en árið 2013 og heildarupphæðin er lægri að raungildi en þá.

5. Enn einu sinni á að skilja aldraða og öryrkja eftir. Þeir eiga enn að bíða eftir réttlætinu. Það er að vísu gert ráð fyrir 4 milljarða viðbót vegna breytinga á greiðslukerfi almannatrygginga en það mun duga skammt ef bæta á kjörin að einhverju marki. Lífeyrir hjá fólki í sambúð nær ekki lágmarkslaunum. Það eru aðeins þeir sem búa einir og fá heimilisuppbót sem skerðist síðan um krónu á móti krónu hjá þeim sem ná lágmarkslaunum. Það er til skammar að við, þessi ríka þjóð, búum svo illa að öryrkjum og öldruðum, þeim sem treysta nánast einungis á greiðslur Tryggingastofnunarinnar.

6. Ríkisstjórnin sýnir ekki nægilega mikinn metnað í loftslagsmálum. Bregðast verður harðar við neyðarástandi sem blasir við okkur. Við þurfum að gera betur í samgöngumálum þar sem mikill útblástur á sér stað. Við verðum að setja aukinn kraft í orkuskiptin og horfa á allar samgöngur út frá vinnu gegn hlýnun jarðar. Við þurfum að vinna mun ákveðnar gegn kolefnisfótspori matvæla og innflutts varnings. Við þurfum einfaldlega að gera mun betur.

7. Í áætluninni koma fram óljósar og loðnar áætlanir hins opinbera til að auka svigrúm til fjárfestinga í innviðum. Þar er gefið í skyn að það eigi að selja banka og hluti ríkisins í fyrirtækjum til að fjármagna innviðauppbyggingu án þess að það sé útfært frekar.

8. Það á að skerða framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um 3 milljarða. Hlutverk jöfnunarsjóðs er að fjármagna hluta þjónustu við fatlað fólk og nauðsynlega þjónustu sveitarfélaga sem búa við veikan fjárhag. En þangað á að sækja peningana. Þangað vill ríkisstjórnin sækja peningana, til sveitarfélaganna.

Við í Samfylkingunni teljum nokkuð ljóst að þessi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar með öllum sínum göllum og óvissuþáttum verði ekki samþykkt óbreytt. Ég treysti því að hæstv. ríkisstjórn hafi teiknað upp sviðsmyndir, hafi sett niður ferla sem fara eigi eftir til að taka á þeim skelli sem óhjákvæmilega verður þegar WOW air hættir störfum. Ég treysti því að hæstv. ríkisstjórn líti fyrst þangað sem skellurinn verður mestur á næstu dögum og vikum — til Suðurnesja. Því að skellurinn kemur auðvitað fyrst þar og störfum mun fækka í flugstöðinni. Sú tölfræði sem ágætt er að miða við þegar metinn er vandi þess fólks sem er að missa vinnuna sína á næstu vikum og mánuðum er að milljón farþegar þýði 950 störf í flugstöðinni einni saman.

Við þurfum fjármálaáætlun, forseti, og fjármálastefnu sem tryggir bæði efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Við þurfum ríkisstjórn sem sér til þess að allir séu með. Þessi ríkisstjórn gerir það ekki. Stefna og áætlanir ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur gera það ekki.