149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

fyrirvarar við þriðja orkupakkann.

[15:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Við höfum nú þegar séð hversu mikið hald er í fyrirvörum og undanþágum gagnvart Evrópusambandinu og ekki hvað síst í máli sem verður væntanlega rætt hér á morgun og varðar innflutning matvæla. Því skyldum við ætla að eitthvert hald væri í því að Alþingi lýsti því yfir í þingsályktunartillögu að vilji þess stæði til að ekki yrði lagður sæstrengur öðruvísi en með aðkomu Alþingis?

Hæstv. forsætisráðherra vitnar í greinargerð Stefáns Más Stefánssonar og virðist telja, ekki var annað að heyra, að hann hefði lagt til að þessi leið yrði farin. Það er nú öðru nær. Það er sérstaklega tekið fram í greinargerð í skýrslunni að þessi leið sé vandkvæðum bundin án þess að farið sé nánar út í það, enda var það ekki verkefnið sem honum var falið. Það virðist þvert á móti vera ljóst að ef eitthvert hald á að vera í fyrirvörum þurfi málið að fara aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Ég ítreka fyrri spurningu: Ef það væru efasemdir um fyrirvarana, að þeir héldu, væri forsætisráðherra samt hlynntur málinu?