149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

leiðrétting vegna búsetuskerðinga TR.

[15:35]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fjármálaráðherra þessi rýru svör. Málið er ósköp einfalt: Þarf sérstaka fjárveitingu fyrir þessu eða þarf það ekki? Ég tel ekki þurfa sérstaka fjárveitingu fyrir þessu. Almenningur kæmist ekki upp með það, ef hann skuldaði ríkinu, að segja bara: Nei, ég ætla ekki að borga, þetta er svo flókið, í tvö ár. Það var 18. júní í fyrra sem umboðsmaður sagði að þetta væri ólöglegt. Í nýrri fjármálaáætlun segir skýrt og skorinort: Það á ekkert að gera í þessu máli fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 2020. Það kom skýrt fram í fjármálaáætlun.

Ég spyr: Veit enginn neitt? Félagsmálaráðherra segir að það vanti fjárheimild, fjármálaráðherra segir að það þurfi ekki fjárheimild. Þá eigum við að borga. Ég spyr mig: Hvernig á að borga? Á að borga dráttarvexti á því tímabili sem þið ætlið að leika ykkur? Eða eiga bara að vera fastir vextir, 5% vextir? Á bara að borga fjögur ár og segja: Nei, við unnum sex, (Forseti hringir.) við þurfum ekki að borga sex ár. Hvað á að borga mikið og hvenær?