149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

kostnaður við smíði nýs Herjólfs.

[15:37]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um stöðuna á Herjólfi. Vegamálastjóri kom fyrir umhverfis- og samgöngunefnd í síðustu viku og fór yfir stöðu málsins eins og það lá þá. Fram kom að mikilvægur tímapunktur hefði verið í málinu sl. föstudag er varðar samskipti við skipasmíðastöðina og snýr að greiðslutryggingum sem þyrfti að kalla inn frá þeim banka sem þær veitti, skipasmíðastöðin þyrfti að framlengja greiðslutrygginguna eða að hún félli niður.

Mér leikur hugur á að vita hvernig málin standa hvað samskipti Vegagerðarinnar og skipasmíðastöðvarinnar varðar. Eins og öllum hér inni er ljóst skiptir þetta gríðarlega miklu máli fyrir Vestmannaeyinga og samgöngur þar um. Það skiptir greinilega miklu hvernig föstudagurinn kláraðist hvað ábyrgð skipasmíðastöðvarinnar varðar. Getur hæstv. samgönguráðherra upplýst okkur um hvort greiðslutryggingin var kölluð inn af Vegagerðinni, hvort skipasmíðastöðin framlengdi hana eða hvort hún féll niður?