149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

kostnaður við smíði nýs Herjólfs.

[15:40]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svarið. Ég held að það skipti mjög miklu máli að þetta liggi fyrir hið fyrsta. Þetta er auðvitað lykilatriði þegar kemur að lúkningu samninga við þessa pólsku skipasmíðastöð sem virðist vissulega hafa komið fram með mjög sérstakar kröfur á lokametrum uppgjörs. Ágætlega var farið yfir það af vegamálastjóra og fulltrúum Vegagerðarinnar í síðustu viku fyrir umhverfis- og samgöngunefnd. Ég held að það sé lykilatriði að fá upplýst um það hvernig tryggingamálum er háttað nú eftir að föstudagurinn sl. er liðinn. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu á nefndarfundinum rann greiðslutrygging skipasmíðastöðvarinnar, „Performance Guarantee“ — afsakið að ég noti enska hugtakið — út sl. föstudag og valkostirnir sem voru lagðir fyrir nefndina voru annaðhvort framlenging á tryggingunni, að hún yrði kölluð inn eða þá að hún rynni út. Þetta er auðvitað lykilatriði þegar kemur að lúkningu þessara samskipta.