149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

skógar og skógrækt.

231. mál
[16:17]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að fara fáeinum orðum um þetta frumvarp til laga um skóga og skógrækt og raunar Skógræktina sjálfa sem stofnun. Okkur eru vel kunn örlög skóga á Íslandi gegnum tíðina, erum sennilega búin að tapa upp undir 90% af þeim skógum sem voru hér fyrir langa löngu. Ég ætla ekkert að rekja þá sögu, hún er flókin og þessi hnignun á sér margar orsakir, mannlegar, veðurfarslegar og fleiri. En það er löngu ljóst að hlutverk skógræktar frammi fyrir þessu er ansi brýnt vegna þess að við eigum þarna landinu skuld að gjalda, hvort sem við getum gengist í ábyrgð fyrir allt sem þar gerðist eða aðeins hluta af því. Endurheimt skóglendis er ekki bara gildishlaðin í okkar augum heldur er hún orðin eitt af stóru málunum. Það sást mjög vel í vinnu nefndarinnar. Það komu margir gestir, það voru margar skoðanir og töluverðar umræður í nefndinni og það hafa verið umræður á Alþingi um skóga og skógrækt alla tíð.

Þess ber að geta að landrými á Íslandi, þar sem við erum búin að tapa skógi af kannski 20–30% landsins, ef við hugsum það þannig, er nægt undir þessa endurheimt án þess að við skerðum í sjálfu sér helstu einkenni náttúrunnar í landinu.

Í þessu frumvarpi er markmiðssetning í allmörgum liðum, sjö, átta liðum. Mig langar aðeins að benda á það sem ég tel vera mikilvægu markmiðin þar. Það er í fyrsta lagi að vernda náttúruskóga landsins og stuðla að aukinni útbreiðslu þeirra. Með náttúruskoðun eigum við við birki- og reyniviðarskóga, aðallega birkiskóga með reyniviðarhríslum, sem við þekkjum og eru til allnokkrir í sinni upprunalegu mynd, þó að það hafi orðið kynslóðaendurnýjun þar; að vernda og endurheimta líffræðilega fjölbreytni og ná jafnvægi milli ólíkra vistkerfa, sem eru fjölmörg í landinu; ræktun nýrra skóga til að byggja upp fjölbreytta skógarauðlind til sjálfbærra nytja. Það hefur verið deiluefni, jafnvel á Íslandi, hvort hér eigi að vera nytjaskógrækt eða ekki en ég held að þeim röddum hafi fækkað mikið, einfaldlega vegna þess að þótt ekki væri nema fyrir loftslagsbreytingar er mikilvægt að þjóðir sem geta stundað skógarnytjar geri það, sjálfum sér til hagsbóta og loftslaginu um leið.

Ég vil líka nefna þetta með að stuðla að kolefnisbindingu með ræktun skóga og aðlögun þeirra að loftslagsbreytingum því að nú er orðið ljóst að við getum gert með endurheimtinni verulegt átak í þessum efnum og bundið kolefni í stórum stíl með skógi, ýmist þessum náttúruskógi sem við erum að tala um eða nytjaskógi.

Síðan, það sem er kannski einna mikilvægast og oft gleymist, stuðlar skógrækt að verndun jarðvegs, nefnilega með rótarbindingu sinni, með breytingu á grunnvatnsrennsli og öðru slíku, hún kemur í veg fyrir uppblástur og vatnsrennsli úr jarðvegi. Og síðast en ekki síst: Ef það verða eldgos hefur það sýnt sig að skógi vaxið land stenst gjóskufall miklu betur en illa farið land og jafnvel mólendi.

Þessi markmið eru mjög skýr og ber að taka undir þau öll.

Síðan langar mig að minnast á landsáætlun í skógrækt til tíu ára. Þar eru þau nýmæli — og það mun speglast yfir í nýju lögin um landgræðslu líka — að þingnefnd sem málið varðar fer yfir þessa landsáætlun. Hún er ekki lögð fyrir þingið í sjálfu sér en lögð fyrir þá þingnefnd sem um skógrækt fjallar.

Í þessari landsáætlun skal gera grein fyrir eða fjalla um liði sem hér eru, frá a upp í k, allt frá forsendum fyrir vali á landi til skógræktar upp í eldvarnirnar og öryggismálin sem hér bar á góma rétt áðan og eru auðvitað stórmál. Við höfum ekki enn orðið fyrir alvarlegu tjóni af skógareldum á Íslandi. Það er svolítið merkilegt. Það hafa orðið töluverðir skavankar á gróðurlendi, þ.e. sinueldar og annað slíkt, eða gróðureldar, en ekki skógareldar þannig að það er mjög brýnt að taka til við að byggja þetta inn í alla umfjöllun um skógrækt og áætlunargerð og annað slíkt.

Hér er líka það nýmæli að fjölga fimm manna verkefnisstjórn í sjö manna verkefnisstjórn. Það er gert til að tryggja góða breidd og ber að fagna því sérstaklega.

Landshlutaáætlanirnar koma svo í kjölfarið á landsáætluninni og þar er hægt að stuðla enn betur að þeirri náttúruvernd sem við viljum varðandi skógrækt, meður því að þar eru menn komnir nær hinum daglegu eða árlegu verkefnum og nær þeim sem koma beinlínis að skógræktinni sjálfri.

Mig langar aðeins að minnast líka á þjóðskógana. Frumvarpið leggur fram hvaða skógar það eru. Það eru sem sagt lönd og skógar í umsjón Skógræktarinnar. Síðan koma nokkrir liðir sem leggja ákveðnar skyldur á herðar Skógræktinni, um verndina, menningarminjar, um aðgengi, útivist, fræðslu og annað. Eins er í nefndarálitinu komið inn á „útivistarskóga“. Það er hugtak sem er að einhverju leyti kannski nýtt í þessu samhengi vegna þess að vissulega eru þjóðskógar útivistarskógar, sennilega flestir ef ekki allir. En það eru líka til skógar sem frjáls félagasamtök og skógræktarfélög í landinu hafa ræktað upp. Við köllum þá útivistarskóga. Það er tekið aðeins á þeim hér í nefndarálitinu og ekki vanþörf á, vegna þess að þeir eru mjög mikilvægir í öllu samhenginu.

Það er komið inn á skógrækt á lögbýlum hér og þarf svo sem ekki að fjölyrða mikið um hana. Það er sagt sem svo að Skógræktin skuli veita framlög til skógræktar, þar með talið verndar og endurheimtar náttúruskóga og skjólbeltaræktar á lögbýlum. Það er mjög mikilvægt að það sé inni í þessari skógrækt á lögbýlum að þau geta verið að endurheimta náttúruskóga, þetta þurfi ekki eingöngu að vera bændur eða aðilar sem eru að rækta skóg til beinna trjánytja heldur náttúruskógana okkar sem eru mjög mikilvægir í endurheimt skóga á Íslandi yfir höfuð.

Það er svo bætt við í þessum greinum að nytjaskógrækt er unnin með sérsamningum með erlendum tegundum. Ég tel að þær hafi ekki ógnað lífríki landsins hingað til og muni ekki gera það, enda þótt þær vaxi upp í allmörg hundruð ferkílómetra af öldruðum skógi, sem þarf til þess að Ísland verði nálægt því að vera sjálfbjarga með timbur. Það er mjög mikilvægt að þetta komi hér fram og eins að á grundvelli samninga um skógrækt er heimilt að greiða allt að 97% af samþykktum stofnkostnaði við þessa skógrækt. Þarna er töluvert örlæti viðhaft og ekki vanþörf á vegna þess að enn er langt í land.

Svo kemur hér að lykilatriðinu sem er í 17. gr. þessa frumvarps, sjálfbærni nýtingar. Það er einfaldlega leiðarstefið í þessu öllu að hvort sem við erum að rækta upp náttúruskóga eða hefðbundna nytjaskóga eða útivistarskógana — eða hvað við köllum þessar skógartegundir allar — sé sjálfbærni höfð að leiðarljósi. Það þýðir þegar nytjaskógar verða orðnir til, með timburframleiðslu sem er í stórum stíl á okkar mælikvarða, verði það gert með þeim formerkjum að hér verði plantað út í samræmi við áætlanir um áframhaldandi nytjaskógrækt sem gagnast okkur.

Ég fagna þessu frumvarpi og tel það stuðla að frekari framförum í því sem ég vildi kalla bæði land- og mannrækt og góðan ramma. Ég þakka samstarfið í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og ágætan samhljóm í þessu nefndaráliti sem hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir fór hér yfir.