149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

póstþjónusta.

739. mál
[17:15]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að fara yfir þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um póstþjónustu. Ég kem hingað upp til að spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna frumvarpið sé komið hingað inn — hann fór aðeins yfir það í máli sínu — þegar við erum með heildarlög til breytingar á póstþjónustu í meðferð þingsins, hvers vegna þetta kemur í þessu formi. Frumvarpið fór ekki inn í samráðsgáttina að því er ég fæ best séð. Ef þetta er eingöngu gert til að koma til móts við þá ofboðslegu stöðu sem Íslandspóstur er í er ljóst að það er svolítið seint í rassinn gripið með það. Sú vonda staða var öllum ljós þegar heildarlögin komu hingað inn í þingið. Ég spyr: Af hverju kemur þetta inn í þessu formi en ekki bara í stóra frumvarpinu?