149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

póstþjónusta.

739. mál
[17:17]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er fullkomlega eðlileg spurning þar sem við erum með heildarendurskoðun á póstþjónustu til meðferðar. Löngu eftir að það frumvarp var tilbúið og kom til þingsins sl. haust barst ákall frá Íslandspósti um að breytingar hefðu orðið miklu meiri á síðasta ári í rekstri fyrirtækisins en búist hefði verið við, að pakkasendingarnar yllu þessum mikla vanda. Við erum í raun með frumvarpinu að bregðast við því og gera breytingu og þess vegna er farið nokkuð hratt, ekki farið í gegnum samráðsgáttina og annað, til að setja undir leka fyrir fjárstraum frá Póstinum og um leið að tryggja að með afgreiðslu á frumvarpinu, eins og kom fram í máli mínu, myndi Pósturinn eða alþjónustuveitandinn ekki geta gert kröfu á ríkissjóð um greiðslu vegna þessa alþjónustutaps, heldur væri möguleikinn kominn hér.

Við erum í raun að takmarka tjón ríkisins til lengri tíma en setja inn eðlilega, að okkar mati, möguleika á því að breyta gjaldskránni. Eins og staðan er í dag má halda því fram að Pósturinn, þá sem eigandi eða sem bakhjarl, þ.e. ríkið, ríkissjóður, sé að niðurgreiða erlenda póstverslun í samkeppni við innlenda verslun. Ég held að við séum öll sammála um að það er ekki eðlilegt.