149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

póstþjónusta.

739. mál
[17:20]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðustu spurninguna gildir hún hugsanlega fyrir alla þá sem taka að sér alþjónustukvöðina, þetta snýst um það. Stóra frumvarpið er vissulega inni, þar sem aðeins er tekið á þessu, og þegar það tekur gildi verður vonandi umtalsverð breyting á rekstrarumhverfinu. Við sjáum það fyrir okkur að það breyti því umhverfi sem Íslandspóstur er í í dag. En það á ekki að taka gildi fyrr en á árinu 2020. Þetta mál kemur hingað inn til að biðja þingið um að afgreiða það hratt þannig að það geti tekið gildi sem fyrst. Það er von okkar að við samþykkt þessa frumvarps taki þetta gildi strax og þannig verði hægt að takast á við vaxandi útstreymi úr sjóðum Íslandspósts á þessu ári vegna þess að pakkasendingunum hefur fjölgað snarlega.

Það er alveg rétt að þetta er vandi sem fjölmargar aðrar þjóðir og póstfélög annars staðar hafa verið að glíma við í einhvern tíma og aðrir hafa verið að bregðast við í Alþjóðapóstsambandinu. En hjá okkur virðist vandinn hafa vaxið mjög hratt á sl. ári og haldið áfram að vaxa. Ég held að þetta sé breyting sem komi eins og bylgja. Fjármunirnir sem streyma þarna út eru þá einhvers konar niðurgreiðsla við erlenda póstverslun, annaðhvort með peningum Íslandspósts, sem þingið, ríkið, verður að takast á við eða hugsanlega sem krafa eftir á frá alþjónustuveitandanum um að fá þetta greitt úr ríkissjóði. Við erum hreinlega að reyna að bregðast við eins fljótt og hægt er og þess vegna kemur þetta mál hér inn. Ég treysti því að þingið sendi þetta út til umsagnar. Vonandi skapast umræður í samfélaginu um þetta mál þannig að menn átti sig á því að þó að svo þetta sé (Forseti hringir.) viðbótarkostnaður er heldur ekki eðlilegt að ríkissjóður eða fyrirtæki á vegum ríkisins séu að niðurgreiða erlenda póstverslun í samkeppni við innlenda verslun.