149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[17:29]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir framsögu hans og þetta frumvarp sem ég tel að sé að mörgu leyti til bóta, enda er þetta, eins og ráðherra kom inn á í framsögu sinni, mjög mikilvægt málefni. Það skiptir öllu máli að við tökum það föstum tökum.

Ég er samt með nokkrar spurningar sem ég mun reyna að skipta á milli andsvara þannig að örugglega sé hægt að svara þeim öllum á þessum stutta tíma. Ég vona að ráðherra geti svarað hér.

Í fyrsta lagi er það varðandi nýja grein um aðlögun að loftslagsbreytingum sem ég tel að sé mjög mikilvæg, enda sýna rannsóknir í loftslagsmálum að næstu fimm til tíu ár munu skipta öllu máli fyrir mannkynið. Á þessum árum mun ráðast hvort við náum að stemma stigu við hlýnun jarðar eða þurfa að fást við skelfilegar afleiðingar, eins og er komið inn á í greinargerð frumvarpsins. Mig langar að spyrja ráðherra hvernig hann sjái fyrir sér að slík áætlun verði unnin og hver beri ábyrgð á eftirfylgni. Gæti það t.d. verið verkefnahópurinn sem kveðið er á um í sömu grein?

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sjái fyrir sér samspil annars vegar verkefnisstjórnarinnar sem hefur þetta stóra verkefni með höndum og loftslagsráðs hins vegar sem á líka, alla vega að einhverju leyti, að fjalla um þessi sömu mál, hvernig þetta muni allt spila saman.

Í þriðja lagi fagna ég því auðvitað mjög að Stjórnarráð Íslands, stofnanir ríkisins og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins eigi að setja sér loftslagsstefnu. Mér finnst þó ekki alveg skýrt, og vona að hæstv. ráðherra geti aðstoðað mig þar, hvort hér sé um að ræða eina loftslagsstefnu fyrir alla eða hvort hver og ein stofnun og hvert fyrirtæki eigi að gera sína eigin.