149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[17:33]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin og fagna því að stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins og Stjórnarráðið eigi að setja sér sérstaka loftslagsstefnu hvert og eitt. Hins vegar er kveðið á um það í frumvarpinu, þ.e. í greinargerðinni, að ekki sé gert ráð fyrir að neinn kostnaður verði fyrir ríkissjóð af frumvarpinu nema hvað varðar ákveðna þætti. Er ekki alveg ljóst að það verður einhver kostnaður fyrir stofnanir ríkisins, Stjórnarráð og fyrirtæki í eigu ríkisins af því að vinna loftslagsstefnu og fylgja henni eftir?

Það er kannski spurning um hvort ekki þurfi að gera ráð fyrir því. Það er ekki út af því að ég sé á móti því að þau geri það, þvert á móti fagna ég því mjög, ég hef bara áhyggjur af því að ekki verði fjármagn til þess að gera það og því muni menn kasta til höndunum, ekki vinna kannski jafn vel og af miklum metnaði og æskilegt væri.

En ég fagna því mjög að loks eigi að virkja loftslagssjóð. Það er löngu tímabært. Ég geld þó örlítinn varhuga við því að ekki sé fjallað um fjármögnun sjóðsins og mig langar því að spyrja hvort ákveðið hafi verið hvar loftslagssjóðurinn verði hýstur. Því er að einhverju leyti svarað í greinargerðinni, en verður það hjá Umhverfisstofnun eða hjá annarri stofnun, eins og er nefnt í greinargerðinni, t.d. Rannís?

Þá vakti athygli mína tillagan um skipan stjórnar loftslagssjóðs og mig langar að spyrja aðeins út í hana. Þar er kveðið á um skipun fimm fulltrúa en aðeins er tekið fram um einn stjórnarfulltrúa, fulltrúa háskólasamfélagsins, að sá fulltrúi eigi að hafa þekkingu á loftslagsmálum. Er ekki eðlilegt að allir fulltrúar í stjórn sjóðsins eigi að hafa einhverja þekkingu á loftslagsmálum?

Þá er jafnframt kveðið á um að nú muni sjóðurinn aðeins styrkja nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsvænnar tækni, auk kynningar og fræðslu, sem ég tel líka vera mjög gott. En hefur ráðherra engar áhyggjur af því að það sé verið að þrengja svið sjóðsins um of? Mætti ekki horfa (Forseti hringir.) aðeins víðar?