149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[17:56]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langaði að koma aðeins hingað upp í fyrsta lagi til að taka aðeins undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur um mikilvægi þess að við ræðum oftar um loftslagsmál í þessum þingsal, enda líklega stærsta viðfangsefnið sem við stöndum frammi fyrir í dag. Það er bara staðan. Staðan er þannig að ég held að 99% loftslagsvísindamanna í heiminum séu orðin sammála um að það eru gróðurhúsaáhrif og að við stöndum frammi fyrir gríðarlegum breytingum á loftslagi.

Þó að Ísland sé eyja í Norður-Atlantshafi og við stundum svo heppin að vera svolítið stikkfrí fyrir vikið erum við ekki stikkfrí þegar kemur að þessum breytingum. Þó að vissulega séu einhverjar breytingar sem menn geta reynt að telja sér trú um að hafi mögulega jákvæð áhrif á Ísland held ég að þau litlu áhrif, ef einhver eru, muni svo miklu meira en núllast út þegar upp er staðið vegna alvarlegra afleiðinga allra hinna.

Við erum nú þegar farin að sjá víða um heiminn þessar afleiðingar, með miklu harðari veðrum. Við erum að sjá hækkun sjávarborðs. Við sjáum t.d. breytingar á vistkerfi sjávar, sem við reyndar höfum því miður allt of litla hugmynd um því að við erum ekki að rannsaka þær nægilega vel og setjum ekki nógu mikið fjármagn í það — sem vekur að sjálfsögðu áhyggjur.

En það er sannarlega ástæða til að ræða þessi mál oftar. Ég er hrædd um að við munum gera það í framtíðinni, einfaldlega vegna þess að við munum ekki komast hjá því þá. Þess vegna eigum við einmitt að vera að ræða þau miklu meira hérna núna, áður en allt fer í kaldakol.

Það var söngkonan Whitney Houston sem söng á sínum tíma um hvernig börnin væru framtíðin og um mikilvægi þess að kenna þeim vel og leyfa þeim að leiða okkur áfram til framtíðar. Þetta er mín tilraun til að þýða enska textann. Ég vona að þið takið viljann fyrir verkið. En nú eru börn um allan heim að rísa upp og mótmæla sinnuleysi stjórnvalda þegar kemur að viðbrögðum við loftslagsmálum. Það er vel skiljanlegt þegar litið er til þess að við erum hér í þessu frumvarpi raunverulega að tala um aðlögun samfélagsins að loftslagsbreytingum. Vissulega tímabært, jafnvel löngu tímabært, og vissulega mjög jákvætt að það sé komið hingað inn, en það er hins vegar mjög sorgleg staða að þess þurfi.

Eins og ég kom inn á í fyrri ræðu er staðan raunverulega sú að jafnvel þótt við myndum stöðva alla losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum á morgun myndi það ekki duga til. Áhrifin yrðu samt sem áður umtalsverð og breytingar á okkar lífsháttum miklar.

Það er stóra málið. Við eigum að hlusta á þessi börn sem hafa staðið hér fyrir utan húsið föstudag eftir föstudag og kallað á sterkari viðbrögð og kallað á breytingar. Það er alveg ljóst að það þurfa að verða breytingar á okkar samfélagi og á okkar lifnaðarháttum. Við þurfum að minnka neyslu, við þurfum að auka jöfnuð og við þurfum að gera okkur grein fyrir að þetta er síðasti séns. Ef við bregðumst ekki við núna verða afleiðingarnar óafturkræfar og mjög alvarlegar.

Ég gæti staðið hér í allan dag og talað um loftslagsmálin sem slík en hvað þetta frumvarp varðar held ég að það sé sannarlega góðra gjalda vert. Eins og ég sagði áðan fagna ég því að það sé komið fram. Ég tel að breytingarnar séu að mörgu leyti til bóta hvað varðar stjórnsýslu loftslagsmála. Ég vona sannarlega að þessar breytingar verði til þess að við förum að spýta í lófana og stíga þyngri og hraðari skref í viðbrögðum okkar í loftslagsmálum.

En ég hef enn þá smááhyggjur af því að við séum að bregðast of hægt við. Við erum alltaf að skipa nefndir og verkefnahópa sem skoða þetta og gera skýrslur sem er frábært og auðvitað þurfum við þess en maður er kannski bara pinkuóþolinmóður því að það er svo alvarleg staða sem við stöndum frammi fyrir. Manni finnst eins og við ættum að vera að gera meira og að við ættum að gera það hraðar. Við gætum t.d. tekið ákvörðun um að banna innflutning á nýjum bensín- og dísilbílum miklu fyrr en við ætlum að gera. Af hverju erum við ekki að taka kolefnisgjald af allri losun, eins og t.d. urðun?

Það eru fjölmörg atriði sem við þurfum líka að horfa til en erum kannski ekki að gera, t.d. að hvetja sveitarfélögin áfram. Sveitarfélögin standa sig reyndar, ætla ég að taka fram, gríðarlega vel og voru með mjög metnaðarfulla ráðstefnu í síðustu viku um loftslagsmál og það sem sveitarfélögin eru að gera. Ég hef nefnt áður hér í þessum ræðustól það sem sveitarfélagið Akureyrarbær er að gera og til hversu mikillar fyrirmyndar það er. Það hefur sett sér það markmið að vera kolefnishlutlaust og byggir það á þessu hringrásarmódeli, að það sé verið að nýta úrganginn. Til dæmis er fyrirtækið Vistorka sem tekur steikingarolíuna og strætó á Akureyri, sem er frír fyrir alla, nýtir hana til aksturs — og sjávarútvegurinn svo sem líka. Svo er moltan, þ.e. að lífræna úrganginum er safnað og hann nýttur í áburð, og mætti náttúrlega nýta hann enn þá betur. Ég veit að það eru miklar hugmyndir um að gera það, sem ég veit að hæstv. ráðherra þekkir ágætlega.

Það eru einmitt svona breytingar sem við þurfum að gera. Við þurfum að hvetja fólk til að nýta sameiginlegar samgöngur, strætó, almenningssamgöngur og annað slíkt. Við þurfum því miður að skoða að minnka t.d. flug. Við þurfum að skoða flutninga. Í því samhengi vil ég nefna atriði sem var komið inn á þegar við fórum um Norðausturkjördæmi í kjördæmavikunni. Þar kom fram mjög áhugaverður punktur varðandi flutninga innan lands. Ef veitingastaður á Seyðisfirði vill kaupa fisk, t.d. af fiskvinnslufyrirtækinu í Neskaupstað, þarf að senda fiskinn fyrst suður til að hægt sé að fá hann til Seyðisfjarðar því að allir flutningar fara þannig fram. Það er alveg hætt, eins og var í gamla daga, að meiri flutningar séu innan svæðanna. Það er algjörlega fáránlegt. Sama er með póstsendingar hjá Íslandspósti, allar sendingar fara fyrst suður. Ef ég sendi t.d. bréf frá Akureyri til Húsavíkur, ef ég skil það rétt, fer bréfið fyrst til Reykjavíkur með flutningabíl og svo til Húsavíkur.

Þetta, herra forseti, er nokkuð sem við hljótum að þurfa að skoða og breyta vegna þess útblásturs sem þarna verður til að óþörfu fyrir utan náttúrlega álagið á vegina og innviðina. Þetta eru atriði sem þarf ekki að eyða miklum tíma í að velta fyrir sér heldur þurfum við að breyta þeim. Það eru svona atriði í stjórnsýslunni sem þarf sannarlega að skoða og ég skora á hæstv. ráðherra að reyna að koma því að í verkefnisstjórn loftslagsmála að skoða að ferlar séu ekki svona kjánalegir, ég ætla bara að segja það umbúðalaust.

Að lokum, eins og ég kom inn á í andsvari áðan, hef ég enn, þrátt fyrir svar hæstv. ráðherra, örlitlar áhyggjur af fjármögnun þessara verkefna. Þó að Umhverfisstofnun hafi sannarlega það hlutverk að styðja við gerð loftslagsstefnu Stjórnarráðsins, stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins er ljóst að það verður líka til kostnaður vegna þessa innan stofnananna sjálfra. Jafnvel þótt sá kostnaður felist eingöngu í vinnu starfsmanna er samt sem áður áhyggjuefni að ekki sé gert ráð fyrir að þessar stofnanir og fyrirtæki hafi kost á því að fá einhver mótframlög vegna þessara mikilvægu verkefna.

Ég nefni í því sambandi þann kostnað sem þessar sömu stofnanir og fyrirtæki verða fyrir, t.d. vegna persónuverndarlaganna sem ekki var gert ráð fyrir í þeirra framlögum en eru að sliga mörg þeirra, þrátt fyrir að þar sé sannarlega mikilvægt verkefni. Það sama á við hér, þetta er svo mikilvægt verkefni að það má ekki stranda á því að ekki sé gert ráð fyrir fjármunum í það.

Að allra síðustu langar mig aftur til að hvetja ríkisstjórnina og þingheim allan til að hlusta á ákall barnanna, ekki bara á Íslandi heldur í öllum heiminum, um aðgerðir og viðbrögð. Eins og staðan er í dag erum við reyndar ekki einu sinni að tala um að þetta verði vandi barnanna okkar og barnabarnanna eða barnabarnabarnanna heldur er þetta bara okkar vandi. Við stöndum raunverulega frammi fyrir því að þetta er vandi sem verður á okkar æviskeiði. Það eru hagsmunir okkar allra að bregðast við hratt og örugglega.