149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[18:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins um röð aðgerðanna og fjármögnunina og ástæðuna fyrir því að ég kvarta. Aðgerð um orkuskipti er t.d. rosalega stór hluti af skýrslunni, milljón tonn, sem sýnir okkur að þar er hægt að ná ansi miklum árangri. En kostnaðurinn við það getur verið mjög mikill. Á meðan geta aðrar aðgerðir verið mun kostnaðarminni en náð miklu meiri árangri, t.d. að loka skurðum í framræstu votlendi. En þar koma inn mismunandi skuldbindingar þar sem endurheimt votlendis spilar ekki inn í beinar skuldbindingar ríkissjóðs og er á þann hátt ekki eins ofarlega í goggunarröðinni, ef svo má segja, þegar kemur að beinum fjárhagslegum skuldbindingum ríkissjóðs en ætti tvímælalaust að vera miklu framar í forgangsröðuninni, bara til að laga vandamálið sem slíkt. Það er ekki endilega mikil endurkoma fjármuna við það að stoppa upp í framræsingu lands og endurheimta votlendi fyrir ríkissjóð, en það er rosalega mikill ávinningur af því aftur á móti í loftslagsmálunum í heildina séð.

Það er sú forgangsröðun sem maður sér að spilar dálítið skakkt inn á milli og ég væri til í að sjá það einmitt betur. Orkuskiptin eru rosalega dýr, bæði er það uppbygging á orkukerfinu og náttúrlega að skipta út öllum bílaflotanum t.d., en þó að stofnkostnaðurinn sé mikill er ávinningurinn til langs tíma mjög mikill. Aftur á móti stoppar endurheimt votlendis rosalega mikið af útblæstri strax en tilkostnaðurinn er tiltölulega lítill.