149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[18:23]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta ágæta andsvar. Það er alveg hárrétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns, orkuskiptin annars vegar og t.d. það að moka ofan í skurði hins vegar hafa mismunandi samspil við beinar skuldbindingar Íslands. Með því að moka ofan í skurði er strax komið í veg fyrir útblástur sem er alveg jafn mikilvægur fyrir andrúmsloftið og hver annar útblástur. Andrúmsloftið gerir engan greinarmun á því hvaðan hvert og eitt mólikúl eða hver sameind af CO2 kemur. En ég held að við hv. þingmaður getum verið algerlega sammála um að hvort tveggja sé mikilvægt. Það er einmitt lögð mikil áhersla á hvort tveggja.

Einn af meginrökstuðningnum fyrir því að ráðast í aðgerðir eins og að endurheimta votlendi eða birkiskóga eða hvað það er, fara í kolefnisbindingu, er að þá vinnum við á mjög stórum þætti sem eru mólikúlin í andrúmsloftinu. Það skiptir ekki máli hvaðan þau koma. Það skiptir máli að koma í veg fyrir að þau fari út og það skiptir máli að binda þau. Ávinninginn verður náttúrlega líka að skoða í samhengi við markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Það að það markmið er í stjórnarsáttmála kallar á að við verðum líka að fara í aðgerðir sem þessar. Þess vegna er mér mikill stuðningur í að hafa þetta markmið stjórnvalda sem eitt af því sem mér ber að líta til við þessa áætlanagerð.