149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[18:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Votlendið og orkuskiptin voru augljósu dæmin og að sjálfsögðu er verið að vinna í hvoru tveggja. Maður sér ekki hversu hratt mun ganga í einu verkefninu eða öðru í átt til þess að uppfylla þessar skuldbindingar sem við erum að vinna að. En einmitt vegna þess að markmið okkar er kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 sér maður, miðað við þær skýrslur sem við erum að vinna með, að þessar aðgerðir einar og sér duga ekki til að ná því markmiði. Það eru fleiri atriði sem þarf að vinna að. Skógræktin er t.d. eitt, en það eru ýmsar aðrar plöntur sem eru mun betri í kolefnisbindingu en skógar, hraðvirkari o.s.frv. Það eru ýmsar aðrar aðgerðir sem maður myndi vilja að yrðu alla vega skoðaðar og fjallað um. Þess vegna myndi ég hvetja til þess að það væri einmitt sérstök umræða í hverri viku í þinginu um loftslagsmálin til að uppfæra stöðuna og segja okkur hver gangurinn er t.d. í þessari aðgerðaáætlun, hvaða atriði er verið að skoða og hvaða árangri er verið að ná.

Ég bendi aftur á árangurinn og að við getum séð ávinninginn því að markmiðið er skýrt fyrir 2040 og ætti að gerast fyrr. Markmiðið á að sjálfsögðu að vera að við komumst í að vera kolefnisneikvæð, þ.e. að við náum að draga kolefni úr andrúmsloftinu. Þá erum við komin með stjórnina á því að geta stillt hversu mikið kolefni eða hve mikið af mólikúlum við höfum í andrúmsloftinu yfirleitt. Eins og komið hefur fram hér í umræðum áður um það að stoppa núna, það að vera kolefnishlutlaus núna — áhrifin af því magni kolefnis sem er í andrúmsloftinu núna eru ekki komin fram. Við verðum að geta stjórnað því hvort við þurfum að fara til baka eða ekki.