149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

efnalög.

759. mál
[18:30]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á efnalögum. Markmið frumvarpsins er að styrkja efnalöggjöfina, gera hana aðgengilegri með markvissari og skýrari hugtakanotkun og innleiða EES-reglur um kvikasilfur. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á einstökum ákvæðum gildandi laga til að gera þau skýrari, einfaldari og markvissari í framkvæmd. Breytingar þessar eru einnig til þess fallnar að tryggja jafnræði aðila á markaði og draga úr kostnaði fyrir atvinnulífið.

Þær tillögur sem fela í sér efnislegar breytingar varða fyrst og fremst heimild til að leggja á stjórnvaldssektir og breytt fyrirkomulag í tengslum við endurnýjun á notendaleyfum. Við framkvæmd efnalaga hafa m.a. komið upp álitaefni um hvort tiltekin ákvæði þeirra brjóti í bága við EES-samninginn vegna hindrana á frjálsu flæði vöru, svo sem skylda til að tilkynna markaðssetningu eiturefna og plöntuverndarvara og útrýmingarefna sem eingöngu eru ætluð til notkunar í atvinnuskyni. Einnig hafa komið upp álitaefni sem má að einhverju leyti rekja til þess að með efnalögunum voru 13 Evrópureglugerðir og tilskipanir innleiddar í landsrétt í einum lagabálki.

Til að mynda hefur komið í ljós að tiltekin hugtök í lögunum eru skilgreind á ólíkan hátt. Þannig hefur hugtakið varnarefni, sem er samheiti yfir plöntuverndarvörur og sæfivörur, reynst óheppilegt í notkun og fremur til þess fallið að flækja lögin, enda gildir hvor sín ESB-reglugerðin um plöntuverndarvörur og sæfivörur. Til að auka skýrleika laganna eru því lagðar til þær breytingar að nota hugtökin plöntuverndarvörur, sæfivörur og útrýmingarefni í stað samheitisins varnarefni. Fara nú leikar að æsast.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að nokkrum öðrum skilgreiningum verði breytt, aðrar felldar á brott eða uppfærðar sem og að heitum nokkurra hugtaka verði breytt. Þá er lögð til lítils háttar breyting á verkaskiptingu og hlutverki stjórnvalda til að gera stjórnsýsluna skilvirkari. Þannig er gerð tillaga um að skerpa á hlutverki heilbrigðisnefnda sveitarfélaga, að Vinnueftirlit ríkisins taki saman upplýsingar um atvinnusjúkdóma sem tengjast sæfivörum og að Eitrunarmiðstöð Landspítalans verði gert að taka saman öll tilvik eitrunar vegna sæfivara og allar ráðstafanir sem gerðar eru til að draga úr hættu á frekari tilvikum.

Lagt er til að tollstjóra verði skylt að hafna tollafgreiðslu efna og efnablandna sem uppfylla ekki skilyrði laganna að fengnum tilmælum frá Umhverfisstofnun í stað þess að um sé að ræða heimild tollstjóra og að Umhverfisstofnun verði ekki lengur skylt að gefa út skráningarnúmer fyrir tollafgreiðslu eiturefna og leyfisskyldra efna og efnablandna.

Í samræmi við framkvæmdina í Noregi er lagt til að gildistími notendaleyfa verði lengdur. Notendaleyfi hafa gilt til fimm ára sem kallar á óþarflega tíðar endurnýjanir með tilheyrandi kostnaði fyrir leyfishafa vegna skyldubundinnar endurmenntunar og gjaldtöku Umhverfisstofnunar. Lagaumhverfi og aðferðir við notkun plöntuverndarvara og útrýmingarefna taka ekki það miklum breytingum að þörf sé á svo tíðri endurnýjun leyfa.

Þá er lagt til að sett verði lagastoð fyrir skilyrði um endurmenntun áður en til endurnýjunar á notendaleyfi kemur í ljósi kröfu um slíkt í EB-tilskipun um aðgerðaramma bandalagsins til að ná fram sjálfbærri notkun varnarefna. Einnig er skerpt á því í hvaða tilfellum Umhverfisstofnun er heimilt að draga notendaleyfi til baka, t.d. ef leyfishafi gerist brotlegur við lög og reglugerðir sem tengjast starfi hans.

Lagt er til að gerðar verði breytingar á gjaldtökuheimildum, m.a. vegna útgáfu vottorða fyrir ábyrgðaraðila fyrir markaðssetningu eiturefna sem og plöntuverndarvara og útrýmingarefna sem eingöngu eru ætluð til notkunar í atvinnuskyni. Talin er ástæða til að skýra betur gjaldtökuheimild vegna beitingar þvingunarúrræða í eftirfylgnimálum sem nú þegar er kveðið á um í gjaldskrá Umhverfisstofnunar.

Nokkur tilfelli hafa komið upp þar sem beiting þvingunarúrræða efnalaga hefur valdið vandkvæðum og því eru lagðar til tilteknar breytingar á ákvæðum sem varða þvingunarúrræði. Talið er rétt að líta svo á að úrræðið stöðvun markaðssetningar um stundarsakir, sem fellur undir XIII. kafla efnalaga, sé í raun bráðabirgðaúrræði en ekki þvingunarúrræði. Þær lagfæringar sem lagðar eru til í frumvarpinu snúa í raun að lagatæknilegri útfærslu á heimild Umhverfisstofnunar til að stöðva tímabundið markaðssetningu vöru sem ekki uppfyllir skilyrði efnalaga.

Frumvarpið snertir einnig framkvæmd mikilvægra alþjóðasamninga um loftslagsmál og kvikasilfur. Lagt er til að Umhverfisstofnun verði heimilt að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota gegn ákvæðum sem varða annars vegar flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, eða svokölluð f-gös, og hins vegar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda á vistferli fyrir hverja orkueiningu úr eldsneyti og afhentri orku. Þetta tvennt felur í sér mikilvægt skref í loftslagsmálum. Bæta þarf við ákvæði vegna þess að Ísland hefur fullgilt Minamata-samninginn um kvikasilfur og tengist það einnig fyrirhugaðri innleiðingu ESB-reglugerðar um kvikasilfur.

Líkt og ég hef rakið að framan eru í frumvarpinu fyrst og fremst lagðar til breytingar sem þörf er á að gera í ljósi reynslunnar á framkvæmd laganna sem miða að því að bæta og einfalda löggjöfina og gera framkvæmd málaflokksins markvissari. Verði frumvarpið að lögum mun það tryggja meira öryggi við meðferð efna.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.