149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

kynrænt sjálfræði.

752. mál
[18:37]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um kynrænt sjálfræði. Í frumvarpinu er lagt til að í íslenskri löggjöf verði kveðið á um rétt einstaklinga til að skilgreina sjálfir eigið kyn og miða þannig að því að tryggja að kynvitund hvers og eins njóti viðurkenningar. Einnig er lögunum ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi. Framlagning þessa frumvarps er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að ríkisstjórnin vilji koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks með metnaðarfullri löggjöf um kynrænt sjálfræði í samræmi við nýútkomin tilmæli Evrópuráðsins vegna mannréttinda intersex fólks. Jafnframt kemur fram í stefnuyfirlýsingunni að í þeim lögum yrði kveðið á um að einstaklingar mættu sjálfir ákveða kyn sitt, kynvitund þeirra njóti viðurkenningar og að einstaklingar njóti líkamlegrar friðhelgi og jafnréttis fyrir lögum óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.

Með frumvarpinu er komið til móts við ný og breytt viðhorf til opinberrar skráningar kyns og stuðlað að réttarbótum trans og intersex fólks.

Lagt er til að sérhver einstaklingur sem náð hefur 15 ára aldri hafi rétt á að breyta skráningu á kyni sínu í þjóðskrá og að barn yngra en 15 ára geti með fulltingi forsjáraðila sinna fengið breytt opinberri skráningu kyns síns. Sú ákvörðun að breyta kynskráningu barns skal tekin með hagsmuni þess að leiðarljósi og vera í samræmi við vilja þess og þróun kynvitundar. Gert er ráð fyrir að breytingin verði ekki háð neinum skilyrðum, þá er ég að tala um breytingar á borð við skurðaðgerðir, lyfjameðferð, hormónameðferð, geðlæknismeðferð eða sálfræðimeðferð, en gildandi lög gera ráð fyrir ákveðnum skilyrðum. Jafnhliða breyttri skráningu kyns á umsækjandi rétt á að breyta nafni sínu og þær breytingar eru heimilaðar einu sinni, nema sérstakar ástæður séu til annars.

Herra forseti. Þá er lagt til í frumvarpinu að hlutlaus skráning kyns verði gerð heimil. Sú heimild felur í sér viðurkenningu á því að ekki falla allir einstaklingar undir tvískiptingu í kven- og karlkyn. Opinberum aðilum og einkaaðilum sem skrásetja kyn ber að gera ráð fyrir hlutlausri skráningu kyns og í vegabréfum skal tákna hlutlausa skráningu kyns með bókstafnum X. Jafnframt er lagt til að verði frumvarpið samþykkt taki lögin þegar gildi, en kveðið er á um að aðilar sem skrásetja kyn hafi 18 mánaða frest frá gildistöku laganna til að laga skráningarform, eyðublöð, skilríki og þess háttar. Ástæða þess er sú að frumvarpið kallar á talsverðar breytingar á skráningarkerfum Þjóðskrár Íslands og er það mat stofnunarinnar að hún geti ekki lagað starfsemi sína að ákvæðum frumvarpsins á skemmri tíma.

Þetta er gríðarlega mikil breyting og merkileg. Ég tók eftir því sem áhugamanneskja um þetta mál að spurt var í spurningaþættinum Útsvari á dögunum hver væri fleirtalan af fornafninu hán, sem er það fornafn sem við notum um einstaklinga sem hvorki eru hann né hún. Ég var heima hjá mér og ég tek fram að ég svaraði þessu rétt, fleirtalan er að sjálfsögðu þau. En liðsmenn þessa liðs, ég man ekki hvert það var, voru í töluverðum vandræðum og veltu þessu fyrir sér. Þau komu svo með svar, sem ég man ekki hvort var rétt, eða einhverja góða ágiskun. Það minnir okkur á að þetta frumvarp, verði það samþykkt, sem ég vona einlæglega, mun þýða miklar framfarir í löggjöf fyrir réttarstöðu þessa fólks og setja Ísland í fremstu röð, og ég kem aðeins að því á eftir, ásamt ríkjum á borð við Möltu sem hefur tekið forystu í þeim málum, og vonandi færa okkur ofar á regnbogakortinu yfir réttindi hinsegin fólks og vonandi líka verða til þess að umræða vakni í samfélaginu um hvað þetta þýðir og hvað við eigum við þegar við tölum um mannréttindi allra.

Frumvarpið gengur út frá því að þeir einstaklingar sem frumvarpið tekur til eigi greiðan aðgang að þeirri heilbrigðisþjónustu sem þau þurfa á að halda og að óheimilt verði að gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklings 16 ára og eldri án skriflegs samþykkis.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir áframhaldandi starfsemi teymis Landspítalans sem hefur það hlutverk að veita skjólstæðingum 18 ára og eldri upplýsingar og ráðgjöf. Jafnframt er lagt til að starfsemi óformlegs teymis sérfræðinga á BUGL, sem veitt hefur börnum sem upplifa kynmisræmi nauðsynlega aðstoð undanfarin ár, verði lögfest. Enn fremur er gert ráð fyrir skipun sérfræðinefndar um breytingu á kynskráningu barna sem ætlað er að taka ákvarðanir um hvort veita skuli barni undir 15 ára aldri heimild til að breyta opinberri skráningu kyns síns án fulltingis forsjáraðila eða ef forsjáraðila greinir á um breytinguna. Auk þess eru lagðar til breytingar á nokkrum lögum sem tengjast efni frumvarpsins og lagt er til að lög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda, nr. 57/2012, falli úr gildi. Þau lög voru auðvitað framfaraskref á sínum tíma en þetta er vonandi til marks um ákveðna breytingu í því hvernig við hugsum um réttindi fólks að nú tölum við um kynrænt sjálfræði en ekki um fólk með vanda. Það er alveg gríðarleg breyting sem felst hér í orðanotkun.

Virðulegi forseti. Mikilvægt er að sérstakt tillit verði tekið til réttinda barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Ýmis atriði sem lúta að því þurfa hins vegar frekari skoðunar við og því var það niðurstaða mín að gera ekki tillögu um sérstakt ákvæði sem varðar breytingar á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni í þessu frumvarpi. Hins vegar er lagt til í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins að ráðherra setji á fót starfshóp sem verði falið að semja frumvarp til laga um breytingar á lögum um kynrænt sjálfræði, verði þetta frumvarp samþykkt, þar sem mælt er fyrir um meginsjónarmið og reglur sem gilda skulu í slíkum tilvikum. Ég tel mjög brýnt að tryggja í öllu réttindi intersex barna og gæta að því um leið að ekki skapist óvissa fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Hér þurfa að gilda skýrar reglur með hagsmuni barnsins í forgrunni og er það markmið þeirrar lagalegu greiningarvinnu sem nú er fyrir höndum að tryggja að svo megi vera.

Jafnframt er gert ráð fyrir í ákvæði til bráðabirgða að ráðherra skipi starfshóp til að fjalla um og gera tillögur um breytingar á öðrum lögum sem nauðsynlegar eru til að tryggja réttindi trans og intersex fólks, þar á meðal barnalögum, nr. 76/2003, og lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996. Skulu báðir starfshópar skila niðurstöðum sínum og tillögum eins fljótt og auðið er. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að Alþingi ljúki meðferð þessa frumvarps þó að við séum ekki með öll verk unnin og setjum fleiri af stað til þess að við náum að stíga þetta mikilvæga skref, sem ég tel vera mikla réttarbót, og að sjálfsögðu verður svo að halda áfram meðan vinnunni er ekki lokið. Þetta er bara áfangi á þeirri leið.

Herra forseti. Lengi vel var íslensk löggjöf um málefni hinsegin fólks mjög framarlega þegar við bárum okkur saman við önnur lönd en hún hefur ekki fylgt eftir þeirri öru þróun sem átt hefur sér stað í þeim málefnum undanfarin ár, líkt og komið hefur fram í opinberum, alþjóðlegum úttektum. Ég nefndi regnbogakortið áðan. Stafar það einna helst af því að íslensk löggjöf hefur ekki fylgt eftir þeirri þróun sem hefur orðið á málefnum trans og intersex fólks, m.a. vegna þess að enn er krafist sjúkdómsgreiningar og læknismeðferðar til að fá kyni og nafni breytt opinberlega.

Ég nefndi áðan löggjöfina á Möltu, frá árinu 2015, um rétt fólks til að skilgreina kyn sitt sjálft, en hún var einn helsti hvatinn að undirbúningi þessa frumvarps. Þá hafa Danir, Norðmenn og Svíar breytt lögum sínum til að stuðla að bættri stöðu trans og intersex fólks og hefur þing Evrópuráðsins sent frá sér ályktun um stöðu þessara einstaklinga og sett fram tilmæli um ýmsar ráðstafanir til að bæta þá stöðu sem við tökum tillit til í frumvarpinu.

Vilji er fyrir hendi til að koma á áþekkum réttarbótum hér á landi. Minn metnaður stendur til þess að við getum aftur komið Íslandi í fremstu röð þegar kemur að málefnum hinsegin fólks. Ég tel að við eigum fullt erindi þangað og ég tel og vona að breið pólitísk samstaða sé um þær réttarbætur sem felast í frumvarpinu og sömuleiðis að við náum sameiginlega að vinna að þeim áföngum sem eftir eru á þeirri leið og eru boðaðir í bráðabirgðaákvörðun, sem ég nefndi áðan, á þessu kjörtímabili.

Ég hef nú þegar gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og legg því til að lokinni þessari umræðu að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.