149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

kynrænt sjálfræði.

752. mál
[18:46]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að hrósa hæstv. forsætisráðherra fyrir þetta að mörgu leyti metnaðarfulla frumvarp. Ráðherra fór vel yfir málið og ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa mjög mörg orð um það í bili. Þó vil ég segja að þetta samrýmist stefnu Samfylkingarinnar og hnykkja á stuðningi þingflokksins við málið.

Frumvarpið felur auðvitað í sér mjög miklar réttarbætur og er til þess fallið að Ísland taki forystu hvað varðar kynrænt sjálfræði og viðurkenningu trans fólks. Í heimi þar sem fólk er enn þá beitt misrétti, andlegu og líkamlegu ofbeldi, einfaldlega vegna þess að það elskar einhvern eða er með einhverjum hætti, skiptir máli að sýna gott fordæmi. Ég mun því með ánægju taka þátt í að gera þetta stóra skref í áttina að réttlátara og betra samfélagi að veruleika.

Sjálfsákvörðunarréttur allra kynja til að stjórna lífi sínu og líkama er auðvitað grundvallarréttur sem við verðum að tryggja. Hér á Íslandi hafa verið stigin mjög mörg mikilvæg skref, ekki síst vegna þrotlausrar baráttu samtaka á borð við Samtökin '78 og Trans Ísland. En við megum hins vegar ekki gleyma því að við eigum enn mjög mörg óstigin skref og baráttunni er auðvitað aldrei lokið. Eins og við höfum jafnvel séð hjá nágrönnum okkar er alltaf hætta á bakslagi. Líka hér á Íslandi horfum við fram á að hugsanlega sé verið að þrengja að réttindum minnihlutahópa með nýju frumvarpi um hatursorðræðu þannig að við þurfum alltaf að vera á varðbergi.

Í mörgum löndum hefur lagaumhverfi sem tryggir réttindi hinsegin fólks verið bætt mikið án þess að nóg hafi miðað til þess að breyta viðhorfum samfélaga. Hér á Íslandi hafa á hinn bóginn viðhorf til hinsegin fólks tekið stakkaskiptum á örfáum árum, en löggjafinn hugsanlega verið svolítið seinn á sér og dregið lappirnar. Þess vegna er ýmislegt sem við þurfum að bæta í þessum málum. Við megum alls ekki sofna á verðinum. Samfara þessum skrefum sem við vonandi stígum fleiri á næstunni þurfum við að viðhalda vitundarvakningu og fræðslu í málaflokknum.

En þó að þetta frumvarp um kynrænt sjálfræði sé gott er það ekki fullkomið. Það tryggir t.d. ekki nauðsynlega vernd barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Það er að vísu rætt í bráðabirgðaákvæði að fyrirhugað sé að setja á laggirnar starfshóp til að fjalla um málefni þeirra þannig að réttarbætur þessara barna dragist ekki á langinn. En ég skora á þingið að fjalla í meðförum málsins svolítið um þetta, a.m.k. að setja nefndinni einhver tímamörk. Þótt vissulega sé talað um „eins fljótt og unnt er“ hefur það sýnt sig að það getur verið æðiteygjanlegt hugtak. Ég hefði viljað sjá það skýrara.

Herra forseti. Grundvöllur opins lýðræðissamfélags er umburðarlyndi og virðing fyrir jafnrétti og mannlegri reisn. Þótt við séum hvergi nærri búin í þessari baráttu held ég að með samþykkt þessa frumvarps séum við a.m.k. einu skrefinu nær réttlátara samfélagi. Ég hlakka til að tjá mig meira um þetta mál þegar það kemur aftur úr nefnd.