149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

kynrænt sjálfræði.

752. mál
[18:50]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þetta er gleðidagur. Það er mér mikil ánægja að standa í ræðustóli Alþingis og fagna því metnaðarfulla frumvarpi sem hér er komið fram, frumvarpi sem mun, þegar það verður að lögum, hafa í för með sér gríðarlega mikilvægar réttarbætur hvað varðar rétt einstaklinga til að skilgreina kyn sitt sjálfir. Þetta mun standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi, meiri gerast réttarbæturnar varla. Þetta mun skipa Íslandi í fremstu röð í þessum málaflokki öllum, málaflokki hinsegin fólks. Það er kominn tími til vegna þess að við höfum allt of lengi setið eftir hvað það varðar og lagaleg staða ekki verið í neinu samræmi við félagslegar aðstæður og samfélagslegan skilning og vilja til þessara mála. Þetta er mjög gott.

Þessi gleðilega staða er ekki síst að þakka einstaklingum úr samtökunum Trans Ísland, Intersex Ísland og Samtökunum '78 sem hafa verið óþreytandi í því að tala fyrir nýjum viðhorfum í þessum málaflokkum. Það er ómetanlegt í réttindabaráttu og fyrir minnihlutahópa að hafa svona öflug samtök, öfluga málsvara á bak við sig, ekki bara fyrir þessa minnihlutahópa heldur fyrir samfélagið allt. Þessi réttindi eru ekki bara fyrir þessa einstaklinga sem þeirra njóta, þótt klárlega sé það mikilvægast, heldur er gríðarlega mikilvægt fyrir Íslendinga alla að við stígum þetta skref.

Málið er komið út úr samráðsgátt stjórnvalda. Þangað bárust ríflega 30 umsagnir. Ég fór ekki yfir þær allar en þær sem ég sá voru jákvæðar og í versta falli hlutlausar, það voru eins konar tæknilegar umsagnir, og það er algerlega frábært.

Þar komu fram nokkur atriði sem mig langaði að nefna og þarf að huga að í vinnunni við þetta frumvarp. Það hefur komið fram í máli hæstv. forsætisráðherra og síðan hjá hv. þm. Loga Einarssyni að það sem frumvarpið kannski gerir ekki er að tryggja rétt barna til líkamlegrar friðhelgi. Hann er ekki verndaður í þessu frumvarpi. Það eru ástæður fyrir því en þetta er stórmál vegna þess að flest brot á líkamlegri friðhelgi þegar kemur að kyneinkennum eru framkvæmd þegar einstaklingarnir eru enn á barnsaldri. Það er því svolítið erfitt að segja að við höfum náð fullkomnum árangri eða góðum árangri fyrr en við klárum þetta. Það skiptir máli, einnig þegar maður lítur til þess að barnaverndarnefnd Sameinuðu þjóðanna, sem fer með eftirlit með framkvæmd barnasáttmálans, beinir tilmælum til aðildarríkja um að virða líkamlega friðhelgi intersex barna, hverfa frá framkvæmd læknisfræðilegra óþarfainngripa í líkama þeirra og virða sjálfsákvörðunarréttinn. Evrópuráðið hefur gefið út tilmæli vegna nákvæmlega sömu atriða, þ.e. mannréttinda intersex fólks, og það er vísað sérstaklega til líkamlegrar friðhelgi barna. Evrópuþingið samþykkti nú síðast í febrúar ályktun um réttindi intersex fólks og hvatti sérstaklega til þess að vernda líkamlega friðhelgi barna.

Það ber því allt að sama brunni. Það er alltaf lögð mest áhersla á börnin og það er ekki tilviljun. Þess vegna veltir maður fyrir sér hvort það sé kannski ástæða til að skoða enn frekar, núna þegar þingið er með frumvarpið til meðferðar, hvort hægt sé að koma þessu máli að aftur hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Hæstv. forsætisráðherra fór yfir það í framsöguræðu sinni áðan af hverju frumvarpið er klárað svona, með því að setja bráðabirgðaákvæði og taka það út fyrir sviga og setja í hendur starfshóps. Störf hins óformlega starfshóps sem kom málinu af stað, málinu sem þetta frumvarp er byggt á, töfðust vegna skiptra skoðana innan hópsins um þetta ákvæði, ákvæðið sem fjallar um breytingar á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Það tókst ekki að ná einingu um málið þar en við erum samt að tala um nokkurra ára vinnu. Þá verður niðurstaðan að mati sérfræðinga að þetta atriði þarfnist nánari skoðunar. Ég hef fullan skilning á því sjónarmiði sem kemur fram í máli hæstv. forsætisráðherra að vilja frekar taka þetta mál áfram og geyma hitt. Spurningin er bara: Hvað er hægt að skoða meira? Hvað getur orðið til þess í vinnu þessa starfshóps að þessu máli verði ýtt úr vör? Er allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis ekki alveg eins vel til þess fallin að taka vel á málinu? Ég efast um að í þessari skoðun komi fram einhverjar upplýsingar sem ekki hafa komið fram síðustu tvö árin. Þetta snýst bara um að taka ákvörðun. Ég vonast því til þess að allsherjar- og menntamálanefnd skoði málið og síðan eiginlega til vara velti ég fyrir mér hvort þá þurfi ekki að setja þessum starfshópi mjög skýr tímamörk svo hann taki ekki önnur tvö, þrjú ár í að klára málið. Það er eitt af því sem ég myndi vilja hvetja hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að skoða.

Annað er það sem umsagnaraðilar hafa saknað úr frumvarpinu og ég sé ekki að hafi verið bætt inn í þeirri mynd sem það kemur hér og það er skráningin. Það vantar skráningu á inngripum varðandi kyneinkenni barna og ég átta mig ekki á því af hverju hún er ekki lögbundin í þessu frumvarpi. Það er sem sagt engin tölfræði til hér á landi um umfang þessara inngripa. Það þyrfti að setja inn að læknar og aðrir sem gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum barna skuli halda skrá yfir þær. Við erum að tala um börnin og það er nú ekki ólíklegt að þetta tengist væntanlegri vinnu starfshópsins en engu að síður er þetta svo gríðarlega stórt mál.

Ég fór að fylgjast með þessum málum fyrir alvöru fyrir ríflega tveimur árum og þá var þetta eitt af því sem kom mér svo ótrúlega nöturlega á óvart. Þetta risamál, þetta risainngrip í líf einstaklinga, var eiginlega ekki talið þess virði að halda yfir það almennilega tölfræði. Þetta er með svo miklum ólíkindum. Ástæðan virðist vera sú leynd sem hefur hvílt yfir þessum málaflokki, sem er eiginlega fáránleg þversögn í sjálfu sér vegna þess að leyndinni er viðhaldið með skorti á aðgengilegum upplýsingum. Ég tek því heils hugar undir ábendingar sem hafa komið fram þess efnis að þeir sem gera slíkar varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum barna skuli halda yfir þær skrár og veita landlækni árlega upplýsingar um inngripin og eðli þeirra og aldur þeirra sem undirgangast slíkar breytingar. Þetta er lykilatriði.

Í umsögnunum eru gerðar alls konar tillögur um breytingar á orðalagi, fyrst og fremst til þess ætlaðar að eyða úreltum sjúkdómsheitum, og ég heyri ekki og skynja ekki annað en það sé fullur vilji til þess að eitthvað fari í gegn. Það verður væntanlega eitt af því sem verður farið vel yfir í samráði og samvinnu við þá einstaklinga sem best þekkja til.

Síðan langar mig aðeins í lokin til að tala um kerfi. Það er umsögn frá Þjóðskrá Íslands sem, eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á, leiddi m.a. til þess að frestur til þeirra aðila til að (Forsrh.: Laga sig að.) aðlagast, ég þakka hæstv. ráðherra, fór úr sex mánuðum yfir í 18 vegna þess að kveðið er á um töluverðar breytingar. Það er svolítið verið að tala um, eðli málsins vegna, breytingar á hinum ýmsu lögum, þar með talið mannanafnalögum. Það er tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir nema einni breytingu. Einstaklingur getur breytt kynskráningu og þar með nafni einu sinni. Maður veltir fyrir sér af hverju sá varnagli er. Það er eins og það sé gert til að þetta passi að mannanafnalögum. Ég mæli sterklega með því að við notum frekar tækifærið og tökum þann lagabálk og hendum honum upp í loftið og fáum gjörbreyttan niður þar sem tekin eru af öll tvímæli um að þeir sem ráða eiga nöfnum einstaklinga eru þeir sjálfir og aðrir ekki. Takmarkanir á því verði felldar niður. Ég er spennt fyrir því að sjá það samofið þessari umræðu í meðförum nefndarinnar.

Eins og þetta er núna er hægt að skipta um kynskráningu einu sinni, hins vegar þarf að rökstyðja það ef gera á það oftar. Ég get ekki skilið það öðruvísi en svo að það sé þjóðskrá sem taki afstöðu til þess sem mér finnst svolítið sérkennilegt. Ég velti fyrir mér, ef menn telja á annað borð að þessar hömlur þurfi að vera, hver það er sem tekur ákvörðun um hvort aðstæður séu slíkar að það eigi að leyfa skráningu aftur. Helst af öllu myndi ég vilja sjá þennan varnagla eða þessi höft hverfa algjörlega. Ég hef mjög litla trú á því að fólk leiki sér að því að skipta um kyn einu sinni í viku eða svo.

Þetta var samansafn yfir það sem ég myndi vilja sjá nefndina fjalla um en það er örugglega eitthvað fleira. Aftur fagna ég þessu frumvarpi gríðarlega. Það er ómetanleg réttarbót. Ég er stolt af því að það skuli vera komið fram og ég lýsi fullum stuðningi þingflokks Viðreisnar við málið og hlakka til þess, og við gerum það öll í þingflokknum, að taka þátt í því að koma málinu á endastöð í meðförum þingsins.