149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

kynrænt sjálfræði.

752. mál
[19:00]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa reifað málið. Ég vil í fyrsta lagi segja það um þá tillögu hv. þm. Loga Einarssonar að það sé rétt að setja tímamörk á þá starfshópa sem skipaðir verða að ég get tekið undir hana. Ég held að það sé ekki óeðlilegt þegar hv. allsherjar- og menntamálanefnd er búin að fara yfir málið að hún geri tillögu að slíkum tímamörkum.

Síðan vil ég nefna það sem hér var reifað af hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson um bráðabirgðaákvæðið um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Það er hárrétt sem hv. þingmaður nefnir, að þau tilfelli eru ekki skráð sérstaklega og það ætti hugsanlega að vera hluti af bráðabirgðaákvæðinu að settar verði einhverjar slíkar reglur um það, samhliða því að setja skýr viðmið um inngrip. Samkvæmt óformlegum tölum sem hafa komið fram, t.d. hjá formanni Samtakanna '78, fæðast tvö til þrjú börn á ári með ódæmigerð kyneinkenni. En þetta er ekki opinber skráning og það er fullkomlega eðlilegt að farið sé yfir það af hálfu nefndarinnar hvort ekki sé rétt að það sé gert.

Ástæða þess að ég tók þá afstöðu að leggja ekki fram ákvæðið eins og það var á einhverjum tíma kynnt af þeim starfshópi sem var að vinna málið var að það kom fram gagnrýni á að hugtakanotkun væri óljós. Þar var talað um að til meðferðar eða inngrips ætti ekki að koma til nema ef brýnar heilsufarslegar ástæður krefðust þess og að það skorti þá á skilgreiningu um hverjar þær væru. Til þess hreinlega að gefa okkur tíma og skýra þessi hugtök betur í eins góðri sátt og hægt er, sérstaklega við heilbrigðisstarfsfólk sem taldi ákveðinni óvissu velt yfir á heilbrigðisstarfsfólk, töldum við að það væri mikilvægt að leggja málið fram og ná þeim áfanga og gefa okkur aðeins meiri tíma í þetta.

Síðan ræddi hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson aðeins um þetta með að breyta skráningu oftar en einu sinni. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni. Ég held að það sé enginn að breyta skráningu kyns sér til gamans. En það kann þó að vera, af því að það kallar ekki á neinar aðgerðir, að einhver hefði húmor fyrir því. [Hlátur í þingsal.] En við teljum náttúrlega í fyrsta lagi að fólk sé almennt ekkert að gera þetta nema einu sinni. Hins vegar er bent á það hér í greinargerðinni um 7. gr. að það geti komið upp sérstakar aðstæður. Við ætlumst til þess að fólk breyti þessu bara einu sinni, þ.e. gerum ráð fyrir því, en maður getur þó með sérstökum rökstuðningi viljað breyta aftur. Ástæða þess að við tökum það fram er að fólk getur t.d. lent í því að óttast um sitt líf vegna þess að það dvelur í löndum þar sem ekki er viðurkennt að vera með hlutlausa kynskráningu. Það er verið að vísa til tilvika af slíkum toga.

Ég get tekið undir með hv. þingmanni. Ég held t.d. ekki að þetta frumvarp, verði það að lögum, sem ég er mjög bjartsýn á eftir þessa umræðu, verði til þess að fólk fari unnvörpum að breyta kyni. Þetta snýst ekki um það. En hugsunin var sú að þetta væri í raun og veru bara það sem við mættum búast við, en að það þyrfti að vera varnagli svo að fólk gæti breytt slíkri skráningu til baka af einhverjum sérstökum aðstæðum.

Er þjóðskrá rétti aðilinn? Við töldum að þetta snerist fyrst og fremst um hina breyttu skráningu. Það er ástæðan fyrir að þetta er lagt til svona.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar. Ég þakka bara hv. þingmönnum kærlega fyrir og bind miklar vonir við þann einbeitta vilja sem hér kom fram til að ljúka málinu á þessu þingi og tek undir þann vilja. Mínar vonir standa líka til þess.