149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[21:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á alls 30 lögum. Um er að ræða breytingar sem nauðsynlegar eru vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins og þess nýja skipulags sem lagt er til að gildi um starfsemi sameinaðrar stofnunar í frumvarpi forsætisráðherra til nýrra heildarlaga um Seðlabanka Íslands. Af þessum 30 lögum eru 27 á forræði fjármála- og efnahagsráðherra en þar af eru 25 lög sem fjalla að meginstefnu um verkefni Fjármálaeftirlitsins og tvenn sem fjalla um verkefni Seðlabanka Íslands, sem eru á forræði fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þrenn þessara laga eru á forræði annarra ráðuneyta, sem eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í tilviki innheimtulaga, velferðarráðuneytið í tilviki laga um húsnæðismál og dómsmálaráðuneytið í tilviki laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Mun ég nú fjalla nánar um helstu efnisatriði frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lagt til að lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi haldi sér sem almenn grundvallarlög um það efni en jafnframt að markmiðum þeirra laga verði breytt nokkuð og þau færð í nútímalegra horf. Meðal annars er lagt til að fram komi að eftirlit með eftirlitsskyldum aðilum eigi að draga úr líkum á að starfsemi þeirra leiði til tjóns fyrir almenning en jafnframt að heilbrigður og traustur rekstur sé ávallt á ábyrgð stjórnenda viðkomandi fyrirtækis.

Þá er lagt til að fjármálaeftirlit verði hluti af verkefnum Seðlabankans en þó þannig að heitið „Fjármálaeftirlitið“ haldi sér sem hugtak í lögum. Er það gert í margþættum tilgangi sem rakinn er ítarlega í frumvarpinu en ég vil þó taka fram hér að með því að viðhalda heitinu mun sú starfsemi innan Seðlabankans sem sinnir eftirliti með fjármálastarfsemi verða afmörkuð frá öðrum verkefnum bankans, m.a. peningastefnu, fjármálastöðugleika og almennri seðlabankastarfsemi. Sú afmörkun er mikilvæg af nokkrum ástæðum, m.a. þeirri að fjármálaeftirlitsverkefnin eru fjármögnuð með sérstakri gjaldtöku á eftirlitsskylda aðila.

Í öðru lagi eru lagðar til minni háttar breytingar á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Lagt er til að Seðlabankanum verði falið, í stað Fjármálaeftirlitsins eins og nú er, að innheimta af eftirlitsskyldum aðilum gjaldið sem stendur undir kostnaði við eftirlit með fjármálastarfsemi. Einnig er lagt til að bankinn skuli í reikningshaldi sínu tryggja fjárhagslega aðgreiningu opinbers eftirlits með fjármálastarfsemi frá annarri starfsemi bankans. Í því felst að gert er ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi við fjármögnun opinbers eftirlits með fjármálastarfsemi og að Seðlabankinn, sem er ríkisaðili í C-hluta ríkissjóðs, muni fá fjárveitingar úr A-hluta ríkissjóðs.

Í þriðja lagi er lagt til að lögum um fjármálastöðugleikaráð verði breytt á þann veg að hlutverk fjármálastöðugleikaráðs verði að hluta til annað en nú er. Lagt er til að ráðið verði framvegis fyrst og fremst samráðsvettvangur um fjármálastöðugleika en að því verði auk þess falið að meta árangur af notkun þjóðhagsvarúðartækja. Þá er lagt til að sú skylda verði lögð á seðlabankastjóra að upplýsa ráðherra, án tafar, telji hann að einhverjar þær aðstæður hafi skapast sem ógna fjármálastöðugleika.

Að auki er lagt til að kerfisáhættunefnd verði lögð niður. Er það gert vegna þess að það er hluti af breyttu skipulagi, að sú starfsemi sem nú fer fram á vettvangi þeirrar nefndar mun framvegis fara fram innan sameinaðrar stofnunar og á vettvangi fjármálastöðugleikanefndar.

Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Annars vegar er lagt til að ákvæði um eftirlit með lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja verði færð úr lögum um Seðlabanka Íslands yfir í lög um fjármálafyrirtæki. Við tilfærsluna er tekið mið af alþjóðlegum lágmarksreglum sem gilda um lausafjáreftirlit, bæði Basel-viðmiðunum og breytingum á Evrópulöggjöf í kjölfar fjármálakreppunnar. Tilfærslan hefur m.a. í för með sér að í stað þess að Seðlabankinn geti beitt lánastofnanir sem hlíta ekki reglum um laust fé dagsektum, á grundvelli laga um Seðlabanka Íslands, mun bankinn geta krafist úrbóta og lagt á dagsektir eða févíti samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og gripið til ýmissa valdheimilda samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

Hins vegar eru lagðar til breytingar á ákvæðum um eiginfjárauka, þ.e. sveiflujöfnunarauka, auka vegna kerfisáhættu og auka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki í þá veru að við beitingu þeirra birti Seðlabankinn um þá stjórnvaldsfyrirmæli. Samkvæmt gildandi lögum tekur Fjármálaeftirlitið stjórnvaldsákvarðanir um beitingu þessara auka að fengnum tilmælum frá fjármálastöðugleikaráði. Beiting eiginfjárauka er alltaf sú sama fyrir sams konar fyrirtæki, eða hóp fyrirtækja, og af þeim sökum er talið eðlilegra að um hana séu settar reglur.

Loks er lagt til að beiting eiginfjárauka vegna kerfisáhættu umfram 3% verði háð staðfestingu fjármála- og efnahagsráðherra. Á beitingu auka umfram 3% myndi einungis reyna við mjög sérstakar aðstæður, auk þess sem við slíka beitingu virkjast skylda til að viðhafa ákveðið tilkynningarferli, m.a. við evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði.

Í fimmta lagi eru lagðar til breytingar á lögum um fasteignalán til neytenda. Þær eru í þá veru að þegar Seðlabankinn setur reglur um hámark veðsetningarhlutfalls vegna fasteignalána og hámark heildarfjárhæðar fasteignaláns eða greiðslubyrðar þess í hlutfalli við tekjur neytanda skuli fjármálastöðugleikanefnd fjalla um reglusetninguna og samþykkja hana. Að auki er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra staðfesti reglurnar. Í gildandi lögum hefur Fjármálaeftirlitið sambærilega reglusetningarheimild að fengnu áliti frá fjármálastöðugleikaráði.

Í sjötta lagi er lögð til breyting á lögum um gjaldeyrismál en þar er lagt til að Seðlabanka Íslands verði heimilað, að fenginni staðfestingu ráðherra og að undangengnu samþykki fjármálastöðugleikanefndar, að setja lánastofnunum reglur um útlán tengd erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu. Í núgildandi lögum um Seðlabankann hefur bankinn þessa heimild að fengnu áliti fjármálastöðugleikaráðs.

Breytingar á öðrum lögum, þ.e. á þeim 24 lögum sem ég hef ekki þegar nefnt hér á undan, eru minni háttar og leiða allar af því nýja skipulagi fyrir sameinaða stofnun sem lagt er til í frumvarpi til nýrra heildarlaga um Seðlabanka Íslands. Flestar varða breytingarnar atriði sem snúa að því að sameinuð stofnun muni bera heitið Seðlabanki Íslands og verði því stjórnvaldsfyrirmæli birt í nafni Seðlabankans og samningar gerðir í hans nafni. Þá eru felld brott ákvæði sem fjalla um verkefni stjórnar Fjármálaeftirlitsins enda verður hún ekki lengur til staðar þegar nýtt skipulag hefur tekið gildi.

Að lokum vil ég taka fram að lagt er til að frumvarpið öðlist gildi á sama tíma og frumvarp forsætisráðherra til nýrra heildarlaga um Seðlabanka Íslands, þ.e. 1. janúar 2020. Við sama tímamark er lagt til að Fjármálaeftirlitið verði lagt niður sem sérstök stofnun og verkefni þess flutt til Seðlabankans.

Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að starfsmenn Fjármálaeftirlitsins flytjist til Seðlabankans við gildistöku laganna og að bankinn yfirtaki þá ráðningarsamninga sem gilda um þá. Jafnframt að embætti forstjóra Fjármálaeftirlitsins verði lagt niður en að fjármála- og efnahagsráðherra verði heimilað að flytja núverandi forstjóra í nýtt embætti varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits í Seðlabankanum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.