149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

skerðingar vegna atvinnu- og lífeyrissjóðstekna eldri borgara og öryrkja.

[14:30]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, þakka flokksbróður mínum hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni kærlega fyrir að koma með hana í sérstöku umræðunni í dag og hæstv. ráðherra fyrir að vera með okkur hér.

Við tölum um skerðingar á lífeyristekjur aldraðra og öryrkja og atvinnutekjur. Við virðumst neita að horfast í augu við það að í þeim þjóðfélagshópum býr mikill mannauður, vannýttur mannauður, og alltaf í boði ríkisstjórnar hverju sinni.

Ég hef áður bent á það sem hv. þm. Þorsteinn Víglundsson benti á áðan. Í fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er ekki gert í neinu ráð fyrir því að reyna að koma til móts við þetta fátækasta fólk, koma til móts við það með því að hætta að skattleggja fátækt. Tækifærið er núna. Ríkisstjórnin hefur það í höndum sér akkúrat núna að laga ástandið á vinnumarkaði með því t.d. að koma til móts við kröfur láglaunastéttanna og verkalýðsins um að hætta að skattleggja fátækt.

Flokkur fólksins á líka frumvarp í velferðarnefnd sem hefur legið þar og kemst ekki inn í þing, frumvarp sem lýtur að því að hætta að skerða launatekjur eldri borgara. En í raun og veru erum við ekki í þessari umræðu að tala um nákvæmlega hópinn sem situr eftir, þ.e. öryrkjana og eldri borgarana sem eru á strípuðum launum frá almannatryggingakerfinu. Við erum að reyna að koma til móts við þá sem mögulega gætu haldið áfram að taka þátt í samfélaginu með okkur og unnið með okkur við að byggja það upp í stað þess að meina þeim um það með slíkum og þvílíkum skerðingum að allur vilji til sjálfsbjargar er ekki orðinn að neinu. Þess vegna spyr ég, þrátt fyrir að talað sé um að það kosti um 10 milljarða að afnema krónu á móti krónu skerðingar á öryrkja, er þá einhver að tala um hvað mannauðurinn myndi skila sér til baka (Forseti hringir.) þegar út á vinnumarkaðinn kæmi og tæki virkilega þátt í samfélaginu með okkur?