149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

skerðingar vegna atvinnu- og lífeyrissjóðstekna eldri borgara og öryrkja.

[14:39]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það var merkilegt að hlusta á hæstv. félags- og barnamálaráðherra segjast vilja fella niður skerðingar á örorkulífeyri því að um það erum við, held ég, öll sammála og munum við í Samfylkingunni ekki liggja á okkar liði við að koma því loksins í gegn. Hættum að mala og förum að gera.

Við höfum rætt þetta svo oft en það breytist ekkert, ekki heldur hjá núverandi ríkisstjórn þar sem hæstv. ráðherra fer með málaflokkinn. Við teljum öll að þetta kerfi sé algjörlega galið. Það er ósanngjarnt og vitlaust. Og ekki nóg með það, heldur er tveimur ólíkum hópum, eldri borgurum og öryrkjum, egnt hvor gegn öðrum, eins vitlaust og það nú er. Það er bara svo dýrt að leiðrétta þetta, segja stjórnvöld alltaf. En við þau vil ég segja að það er líka mjög dýrt að halda fólki í sárri fátækt. Það hefur harkalegar afleiðingar inn í heilbrigðiskerfið og hið félagslega kerfi. Það er dýrt fyrir ríkið og það er dýrt fyrir sveitarfélögin. Svo er alveg merkilegt að hlusta á hæstv. ráðherra greina frá því að eftir að frítekjumark var hækkað hjá eldri borgurum hefur þeim ekkert fjölgað sem sótt hafa vinnu. Það liggur því ekkert fyrir um að þetta verði svo dýrt fyrir ríkissjóð því að við eigum að leyfa fólki að sækja sér þá vinnu sem það mögulega getur til að koma sér út úr sárri fátækt.

Ég þreytist ekki á að benda á að um leið og við setjum mikið fjármagn í að efla virkni einstaklinga sem komnir eru á örorku, með hvers konar virkninámskeiðum og styrkingu, refsum við þeim fyrir að nýta sinn aukna kraft. Það er ekki merki um gott fjármálalæsi, herra forseti.

Að lokum vil ég líka segja að það er alveg merkilegt að hlusta á orð hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem virðast hafa mestar áhyggjur af þeim hópi sem hefur nóg. Þeir hafa komið hérna tveir og hafa sérstaklega (ÁsF: Þetta er rangt.) talað um þá hópa sem hafa nóg milli handanna (ÁsF: Þetta er rangt. Þetta er …) og að þeir eigi … (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Gefið ræðumanni hljóð. Ekki frammíköll.)

Þakka þér fyrir, herra forseti.

Að lokum vil ég segja að það var alveg merkilegt að hlusta á orð hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) sem komið hafa hingað og virst hafa mestar áhyggjur af þeim sem hafa nóg á milli handanna á meðan við hin erum kannski meira að horfa á þá sem ekki hafa til hnífs og skeiðar. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

Fyrirgefðu, herra forseti. Þetta er eiginlega ekki hægt. (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Forseti vill ekki frammíköll og allra síst orðbragð af þessu tagi. En ræðutíma ræðumanns er lokið.)

Já, en ég verð að fá að klára ræðuna, hún var mjög vel tímasett. (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Hv. þingmaður er komin hálfa mínútu fram úr.)

Já, það er af því að annar ræðumaður tók tíma þeirrar sem hér stendur.

Já, þær eru misjafnar áhyggjur fólksins hér á Alþingi. Við í Samfylkingunni höfum frekar áhyggjur af þeim sem ekki eiga til hnífs og skeiðar.