149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

skógar og skógrækt.

231. mál
[14:55]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég styð þetta frumvarp um skóga og skógrækt heils hugar. Ég er ánægður með að með því er lagður grunnur að því að skógrækt geti vaxið og orðið grunnur að stöðugri atvinnu vítt og breitt um landið um langa framtíð. Við þurfum að gera stórátak í skógrækt og þetta er skref í þá átt.

Undir nefndarálitið skrifaði ég með fyrirvara sem felst í því að ég set spurningarmerki við að valdheimildir stofnunarinnar verði rýmkaðar svo mikið sem raun ber vitni, eins og er reyndar algengt meðal stofnana í dag. Það er viðsjárvert en reyndar allt of algengt í stjórnsýslunni.

Þarna er ég að tala um sektarvald sem fært er Skógræktinni í hendur í 23. gr. frumvarpsins.

Ég er einnig ósáttur með 22. gr. þar sem dagsektir sem Skógræktinni er heimilað að leggja á þá sem gerast brotlegir eru allt að 500.000 kr. Þar finnst mér allt of mikið í lagt — svo og að Skógræktinni séu falin ný og óskyld verkefni eins og fram kemur í 21. gr. frumvarpsins.