149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[15:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég svari eggjaspurningunni fyrst minnir mig að það sé bara gert ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi að því leytinu til.

Varðandi bætur vegna sjúkdóma sem kunna að koma upp vil ég fyrst undirstrika að mat okkar fólks, okkar embætta sem sýsla með þessi mál, er að við séum ekki að auka við hættu með því að aflétta þessu. Ég vil bara að það sé undirstrikað.

Hingað til hefur ríkissjóður staðið straum af bótum sem kunna að falla vegna lagasetninga sem brjóta á fólki eða hafa einhverjar afleiðingar. Það hefur verið umræða um það í tengslum við þetta mál að við höfum ekki sambærilegan tryggingarsjóð fyrir bændur eins og þeim býðst á Evrópska efnahagssvæðinu. Við segjum í greinargerð með frumvarpinu að við ætlum að skoða möguleika á því að taka upp og stofna slíkan sjóð. Það ætlum við að skoða af fullri alvöru.

En að óbreyttu, ef til kemur, (Forseti hringir.) ef það er hægt að rekja einhver áföll til lagasetningar þingsins, liggur í augum (Forseti hringir.) uppi að það er ríkissjóður sem ber slíkt.